Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að reglugerð um plastvörur sem miða að innleiðingu tilskipana Evrópusambandsins um einnota plast. Að mati ráðsins er ljóst að reglugerðardrögin muni draga úr vöruúrvali neytenda og stuðla að hærra vöruverði. Viðskiptaráð leggur áherslu á að innleiðingin taki mið af sérstöðu Íslands.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að reglugerð um plastvörur. Með reglugerðinni er annars vegar stefnt að því að innleiða tiltekin ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins (ESB) nr. 2019/904 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið og hins vegar að innleiða að fullu reglugerð framkvæmdastjórnar ESB nr. 2020/2151 um samræmdar reglur um merkingar á einnota plastvörum.
Að mati ráðsins er ljóst að reglugerðardrögin muni draga úr vöruúrvali neytenda og stuðla að hærra vöruverði, einna helst vegna þess að Ísland er örmarkaður og íslenskan ekki útbreitt tungumál.
Í reglugerð ESB frá 2020/2151 er kveðið á um að merkingar á tilteknum einnota plastvörum skuli birtar á opinberu tungumáli þess aðildarríkis þar sem varan er sett á markað. Eru vörutegundirnar eftirfarandi:
Þar sem íslenska er aðeins opinbert tungumál í landi með um 380.000 íbúa er afar ósennilegt að alþjóðlegir framleiðendur sjái hag sinn í að útbúa sérmerkingar á íslensku. Þess þá heldur þar sem innleiðing reglugerðarinnar hefur þegar átt sér stað víða innan EES svæðisins og framleiðendur þegar lagt í kostnað við breytingar á umbúðum á fyrri stigum til að mæta kröfum reglugerðarinnar.
Þá ganga ákvæði reglugerðarinnar um merkingar á opinberu tungumáli mun lengra en almennt gildir um aðrar neysluvörur. Til samanburðar kveður reglugerð nr. 1169/2011 um matvæli á um að lögboðnar upplýsingar skuli vera á tungumáli sem neytendur í viðkomandi ríki skilja. Því heimilar reglugerð nr. 1294/2014 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda því að matvæli séu merkt á íslensku, ensku eða öðru Norðurlandamáli (að finnsku undanskilinni). Það er hóflegt og raunhæft fyrirkomulag sem tekur mið af því að íslenskir neytendur hafa almennt góða tungumálakunnáttu á a.m.k. einu þessara tungumála. Íslenskir neytendur eru vanir því að þurfa að glöggva sig á merkingum vara á öðrum tungumálum og því yrði ekki um nýlundu að ræða þrátt fyrir að merkingarnar yrðu á einu eða tveimur ofangreindra tungumála. Færa má rök fyrir því að markmiðum reglugerðardraganna yrði jafnvel betur náð ef merkingarnar yrðu á tungumáli sem er útbreiddara í ljósi fjölda erlendra ferðamanna og erlends vinnuafls hér á landi, t.d. ensku eða öðrum Norðurlandatungumálum.
Í drögunum er gert ráð fyrir að merkingar verði annaðhvort forprentaðar á umbúðir eða greyptar á vöruna sjálfa. Þannig rúmast notkun límmiða ekki innan þeirrar reglugerðar sem hér um ræðir, þrátt fyrir að sú leið sé viðtekin í tilviki matvæla til þess að mæta kröfum er leiða af reglugerðum ESB. Þær vörur sem falla undir reglugerðina eru nær alfarið innfluttar sem þýðir að innflutningsaðilar þyrftu sjálfir að óska eftir sérlausnum frá erlendum birgjum eða bera sjálfir kostnað af breytingum til þess að uppfylla skilyrðin. Slíkt myndi hafa keðjuverkandi áhrif sem draga úr vöruúrvali og stuðla að hærra vöruverði. Áréttað skal að meðal þeirra vara sem breytingarnar hefðu áhrif á eru nauðsynjavörur á borð við tíðavörur.
Þá þurfa takmarkanir sem þessar sem skerða atvinnufrelsi að hafa skýra lagastoð. Lagaáskilnaðarregla 75. gr. stjórnarskrár felur í sér að ekki megi takmarka atvinnufrelsi nema með viðhlítandi stoð í lögum og dugir reglugerð ein og sér ekki til. Ef takmarka á atvinnufrelsi verður að tryggja að lagastoð sé til staðar áður en íþyngjandi takmarkanir á slíkum réttindum eru útfærðar í reglugerð. Hefur það ekki verið gert í þessu tilviki.
Viðskiptaráð leggur áherslu á að innleiðingin taki mið af sérstöðu Íslands. Í því ljósi telur ráðið brýnt að reglugerðardrögin verði endurskoðuð og framangreind sjónarmið tekin til skoðunar áður en reglugerðin er samþykkt, svo ekki verði óhóflega gengið á hagsmuni neytenda og fyrirtækja hér á landi.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.