Viðskiptaráð Íslands

Tilefni til að endurskoða regluverk um lögverndun starfa

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra sem er ætlað að lögfesta framkvæmd meðalhófsprófunar við breytingar á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum um lögverndun starfa. Ráðið ítrekar fyrri umsagnir og fagnar frumvarpinu.

Frumvarp um breytingu á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi, nr. 26/2010 (meðaðlhófsprófun, EES-reglur) er nú til meðferðar á Alþingi. Með frumvarpinu er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/958 um meðalhófsprófun áður en samþykkt er ný lögverndun starfsgreina.

Markmið tilskipunar um meðalhófsprófun er að koma í veg fyrir ótilhlýðilegar takmarkanir á aðgangi að lögvernduðum starfsgreinum eða iðkun þeirra, að tryggja eðlilega starfsemi innri markaðarins og tryggja á sama tíma gagnsæi og öfluga neytendavernd. Það er á valdsviði aðildarríkja EES-samningsins að ákveða hvort og hvernig eigi að setja reglur sem varða starfsgrein innan marka meginreglna um bann við mismunun og með tilliti til meðalhófs. Tilskipunin felur í sér að aðildarríki eru skuldbundin til að meta meðalhóf krafna sinna um takmarkanir á aðgengi að lögvernduðum starfsgreinum til að tryggja frjálsa för launafólks, staðfesturétt og frelsi til að veita þjónustu, sem eru grundvallarreglur innri markaðarins.

Ráðið fagnar innleiðingu tilskipunarinnar enda er hún liður í því að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að draga úr hindrunum í regluverki og tryggja að ný löggjöf sé skýr og skilvirk. Fjöldi lög­verndaðra starfsgreina og starfa á Íslandi er umtalsvert hærri en í öðrum löndum innan Evrópu og OECD. Fullt tilefni er til endurskoðunar regluverks í ljósi sam­félags­þróunar og breytinga á lagaumgjörð, ekki síst hvað varðar veitingu þjónustu, réttindi neytenda og möguleika almennings til að afla sér upplýsinga. Stjórnvöld hafa nú mun fjölbreyttari leiðir til að ná markmiðum um vernd almanna­hagsmuna.

Viðskiptaráð hvetur ráðuneytið jafnframt til að líta til tillagna OECD frá 2020 um að endurskoða í heild sinni löggjöf um löggiltar starfsgreinar, endurskoða kerfi meistararéttinda og draga úr reglubyrði.

Viðskiptaráð hvetur til þess að frumvarpið nái fram að ganga.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024