Viðskiptaráð styður ábyrg markmið í loftslagsmálum, en leggur áherslu á að þau byggist á raunsæjum forsendum, taki mið af sérstöðu Íslands og verði metin út frá kostnaði og ávinningi fyrir samfélagið. Þetta kemur fram í umsögn ráðsins um drög að landsákvörðuðu framlagi Ísland til Parísarsamningins sem gilda mun til ársins 2035. Mikilvægt er að tryggja að samkeppnishæfni atvinnulífsins sé ekki skert, heldur verði hún forsenda grænnar umbreytingar og árangurs í loftslagsaðgerðum.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að landsákvörðuðu framlagi Íslands (NDC) til Parísarsamningsins. Markmiðið nær til ársins 2035. Ráðið styður markmið um ábyrgar aðgerðir í loftslagsmálum en telur jafnframt að ákvarðanir stjórnvalda verði að byggja á raunsæjum forsendum, taka mið af sérstöðu Íslands og byggja á skýru mati á kostnaði og ávinningi fyrir samfélagið.
Um er að ræða fyrsta sjálfstæða losunarmarkmið Íslands undir Parísarsamkomulaginu, en á fimm ára fresti skulu aðildarríki Parísarsamningsins setja fram landsákvörðuð framlög. Í ár varð ljóst að Ísland gat ekki gert markmið ESB að sínum og þarf því að setja sér eigin markmið.
Markmið Íslands er þríþætt og skiptist eftir bókhaldskerfum losunar (samfélagslosun, losun vegna landnotkunar, og losun innan viðskiptakerfis ESB). Í tilviki svokallaðrar samfélagslosunar setur Ísland sér markmið um 50-55% samdrátt í losun. Um er að ræða verulega hækkun frá fyrra markmiði upp á 41% samdrátt í losun þrátt fyrir að það byggi á sömu áskorunum og fyrra markmið. Að mati Viðskiptaráðs hefur ekki verið tekið nægilegt tillit til sérstöðu Íslands og fyrri árangurs í þeim efnum.
Sérstaða Íslands
Ísland hefur einstaka stöðu í alþjóðlegu samhengi. Hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi er með því hæsta sem þekkist í heiminum (sjá mynd). Þá er losun á hverja framleiðslueiningu lág í alþjóðlegum samanburði og þjóðin er fámenn, með hátt hlutfall orkufreks iðnaðar og mikinn ferðamannafjölda miðað við höfðatölu.[1] Þrátt fyrir þetta er Ísland borið saman við ríki sem búa við gjörólíkar forsendur og standa Íslandi mun aftar þegar kemur að orkuskiptum.
Hafa ber í huga að Ísland hafði þegar náð betri árangri í að fasa út jarðefnaeldsneyti árið 2005 en önnur ríki, þ.m.t. Noregur, hafa náð í dag. Þetta leiðir til þess að byrðar hér á landi vegna loftslagsaðgerða verða hlutfallslega þyngri en annars staðar við innleiðingu sambærilegra eða strangari markmiða. Viðskiptaráð telur nauðsynlegt að stjórnvöld tryggi að sérstaða Íslands sé virt þegar kemur að alþjóðlegum skuldbindingum og stjórnvöld sækist eftir sveigjanleika og undanþágum í ljósi hennar.
Markmiðin þurfa að vera raunhæf
Í tillögunni er lagt til að Ísland setji sér metnaðarfull markmið um samdrátt í losun og kolefnisbindingu. Líkt og áður var rakið er svigrúm til frekari samdráttar minna hér en annars staðar án þess að komi verulega niður á atvinnulífi og lífskjörum. Viðskiptaráð brýnir fyrir stjórnvöldum að þessi markmið þurfa í senn að vera raunhæf og byggja á heildstæðu mati á áhrifum á efnahag, atvinnulíf og samkeppnishæfni.
Þá er gert er ráð fyrir að Ísland þurfi að kaupa losunarheimildir fyrir að minnsta kosti 11 ma. kr. til að geta staðið við skuldbindingar í loftslagsmálum, þar sem ekki hefur tekist að halda í við markmið á síðustu árum.[2] Sá kostnaður mun lenda á einstaklingum og fyrirtækjum sem standa undir lífskjörum í landi þar sem verðmætasköpun er þegar umhverfisvæn.
Samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er lykilforsenda grænnar umbreytingar og samdráttar í útblæstri. Þyngri reglubyrði, nýjar kvaðir eða auknar álögur geta dregið úr fjárfestingargetu fyrirtækja í nýsköpun og grænum lausnum. Þá hefur það verulegar efnahagslegar afleiðingar ef fyrirtæki þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir háar fjárhæðir, á sama tíma og skortur er á nægilegri uppbyggingu grænnar orkuvinnslu og dreifikerfa.
Viðskiptaráð ítrekar mikilvægi þess að markmiðin séu metin út frá kostnaði og ávinningi, en verulega hefur skort á að kostnaðarmat fylgi boðuðum aðgerðum stjórnvalda þegar kemur að loftslagsmálum. Lögfesta þarf markmið út frá aðgerðum sem hafa verið metnar með fullnægjandi hætti, en ekki öfugt. Þá þurfa stjórnvöld að sýna fram á að markmiðin séu sannanlega raunhæf og möguleg, áður en skrefið er gengið til fulls og Ísland skuldbundið til þess að ná þeim að viðlögðum himinháum sektum.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.
1 Samtök atvinnulífsins (2024). „Orka er undirstaða hagsældar“. Slóð: https://www.sa.is/frettatengt/frettir/ny-skyrsla-tvofalda-tharf-graena-orkuframleidslu
2 Visir.is (2025). Slóð: https://www.visir.is/g/20252774622d/is-land-gaeti-thurft-ad-kaupa-losunarheimildir-fyrir-milljarda-til-ad-standa-vid-skuld-bindingar