Stjórnvöld höfðu gefið okkur skattgreiðendum fögur fyrirheit um að tekjuskattur einstaklinga yrði lækkaður um 2% um áramótin. Það var m.a.s. búið að lögfesta þá lækkun. Í sumar gaf ríkisstjórnin hinsvegar út þá yfirlýsingu að skatturinn yrði aðeins lækkaður um 1% og er nú verið að keyra þá breytingu í gegnum þingið. Rökin eru aðeins þau að það þurfi að tryggja þær efnahagslegu forsendur sem liggja til grundvallar samkomulagi aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega hvað varðar þróun verðlags. Markmiðið er semsagt að slá á þenslu.
Slík rök eru aðeins fyrirsláttur. Í fyrsta lagi var ríkisstjórninni full kunnugt um hverslags þensla yrði hér um þessar mundir, þegar skattalækkununum var lofað. Í öðru lagi er í sama frumvarpi lagt til að barnabætur, persónuafsláttur, sjómannaafsláttur og vaxtabætur verði hækkaðar. Slíkt hlýtur að vera þensluhvetjandi og er því hróplegt innbyrðis ósamræmi í rökunum. Í þriðja lagi sýnir ríkisstjórnin það ekki í öðrum verkum sínum að henni sé hugað um að sporna gegn þenslu. Nýverið var hætt við að hætta við ýmsar framkvæmdir, sem áttu að vera þensluhvetjandi, vegna þess að það var ekki lengur talin þörf á því. Í fjórða lagi slær þetta aðeins á þenslu ef ríkið leggur auknu tekjurnar fyrir. Það er ekki að sjá á fjárlagafrumvarpinu að nægjanlegs aðhalds sé gætt.
Rannsóknir sýna að skattbyrði á einstaklinga hefur aukist undanfarin ár. Er það vegna þess að tekjuskattprósentan hefur ekki lækkað nægjanlega samfara hækkandi tekjum landsmanna. Stjórnmál á Íslandi snúast í of miklum mæli um hagsmuni fárra. Hérlendis hafa þrýstihópar sem gæta sérhagsmuna svo mikil áhrif að ríkisstjórnin gerir sérstaka samninga við þá þar sem það er tilgreint hvað þeir fái í sinn hlut. En hver gætir hagsmuna allra? Hags skattgreiðenda? Engir samningar eru gerðir við skattgreiðendur, það er ekki einu sinni staðið við loforðin sem þeim eru gefin.
Davíð Þorláksson
Lögfræðingur Viðskiptaráðs
(Greinin birtist í Fréttablaðinu 4. desember 2006)