45% forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja áætla að skattabreytingar stjórnvalda muni leiða til fækkunar starfsfólks í fyrirtækjum þeirra. Þá telja um 50% fyrirtækja í verslun að breytingarnar muni leiða til fækkunar starfsfólks og í iðnaði er talan um 47%.
Þetta kemur fram í könnun um rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi sem Capacent Gallup framkvæmdi fyrir Viðskiptaráð, en henni lauk 3. febrúar síðastliðinn. Niðurstöður könnunarinnar verða birtar og útfærðar nánar í skýrslu um efnið sem kemur út samhliða Viðskiptaþingi. Þingið verður haldið þann 17. febrúar næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica, en nú þegar hafa yfir 200 þátttakendur skráð sig á þingið og er gert ráð fyrir húsfylli.
Verkefni hins opinbera fjármögnuð af almenna vinnumarkaðinum
Viðskiptaráð hefur bent á nauðsyn þess að jafnvægi ríki á milli stærðar hins opinbera og einkageirans. Riðlist þetta jafnvægi er erfitt að sjá hvaða tekjur eigi að standa undir rekstri hins opinbera til lengri tíma. Fram til þessa hefur aðlögun í kjölfar efnahagskreppunnar nánast eingöngu átt sér stað hjá hinum almenna vinnumarkaði. Þegar allt kemur til alls eru verkefni hins opinbera fjármögnuð af almenna vinnumarkaðnum og algjört grundvallaratriði að almennur vinnumarkaður hafi burði til að standa undir þeim.
Í skýrslu komandi Viðskiptaþings um ríkisfjármál kemur fram, svo ekki verður um villst, að umsvif hins opinbera hafa vaxið hröðum skrefum á undanförnum áratugum. Það er því lykilatriði að langtímastefna stjórnvalda stefni að því að aðlögunin fari fram í ríkari mæli með hagræðingu í ríkisrekstri fremur en stöðugum skattahækkunum. Niðurstaða könnunar þingsins sýnir svo ekki verður um villst að skattahækkanir muni reynast skammgóður vermir í baráttunni við skuldavanda ríkissjóðs.
Nánari upplýsingar um Viðskiptaþing 2010 má nálgast hér.