Eftirlitsstofnun EFTA hefur ákveðið að taka til skoðunar hvort húsnæðisstuðningur ríkis og sveitarfélaga til svokallaðra óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga samrýmist reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð.
Eftirlitsstofnun EFTA (e. EFTA Surveillance Authority, ESA) hefur ákveðið að taka til skoðunar hvort húsnæðisstuðningur ríkis og sveitarfélaga til svokallaðra óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga samrýmist reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð. Í júní s.l. sendi Viðskiptaráð kvörtun til stofnunarinnar vegna þess sem ráðið telur vera ólögmæta ríkisaðstoð sem veitt hefur verið í tengslum við opinberar styrkveitingar til slíkra félaga.
ESA hefur nú ákveðið að taka kvörtunina til efnislegrar meðferðar og fer hún í hefðbundinn farveg innan stofnunarinnar. ESA miðar við að meðhöndla kvartanir innan 12 mánaða frá því að þær berast. Málsmeðferð og tímarammi fer þó eftir eðli máls. Bráðabirgðaniðurstaða ESA liggur að jafnaði fyrir innan 12 mánaða frá því að ákvörðun um efnislega meðferð liggur fyrir.
„Við fögnum þessari ákvörðun ESA og vonum að hún marki fyrsta skrefið í átt að endalokum þessa kerfis. Opinberir styrkir til húsnæðisfélaga uppfylla ekki grundvallarkröfur um gagnsæi, afmörkun og jafnt aðgengi jafnvel þótt um ræði verulegar upphæðir af almannafé á hverju ári,“ segir Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Í kvörtun Viðskiptaráðs var rakið hvernig stjórnvöld veita svokölluðum óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum fjárhagslega meðgjöf með þrenns konar hætti: (1) úthlutunum lóða á undirverði, (2) beinum fjárframlögum í gegnum stofnframlög, og (3) niðurgreiddum lánum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Samanlagt jafngildir meðgjöfin 46% niðurgreiðslu stofnkostnaði nýrra íbúða samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs.
Nánari umfjöllun um þessa meðgjöf má finna í úttekt ráðsins frá apríl 2025: „Steypt í skakkt mót: áhrif húsnæðisstefnu stjórnvalda.“