Hópur nemenda við Verzlunarskóla Íslands kom í heimsókn til Viðskiptaráðs í gær. Þar fengu nemendurnir kynningu á ráðinu frá Birni Brynjúlfi Björnssyni, framkvæmdastjóra, og Gunnari Úlfarssyni, hagfræðingi ráðsins.
Nemendurnir eru í valáfanga sem heitir Peningarnir sigra heiminn eftir samnefndri bók Niall Ferguson, en í henni er m.a. fjallað um það hvernig fjármál koma við sögu í helstu atburðum mannkynssögunnar.
Þeir fengu kynningu á sögu Viðskiptaráðs, hlutverki þess og daglegri starfsemi auk málefnastarfs þess undanfarið. Skemmtilegar og líflegar umræður sköpuðust, bæði um menntamál og námsmat í grunnskólum og einnig um umgjörð veðmálastarfsemi hérlendis.
Ljóst er að þarna eru á ferðinni nemendur sem eiga framtíðina fyrir sér og þakkar Viðskiptaráð þeim fyrir komuna. Ráðið vill jafnframt koma á framfæri þökkum til Björns Jóns Bragasonar, kennara áfangans, fyrir að eiga frumkvæði að því að skipuleggja heimsóknina.