Viðskiptaráð Íslands

Aðgerðir í þágu atvinnulífs

Nú þegar viljayfirlýsing stjórnvalda og IMF liggur fyrir er mikilvægt að stjórnvöld marki skýra sýn til framtíðar.

Samkvæmt yfirlýsingunni liggur fyrir að verulega verður dregið saman í útgjöldum hins opinbera að loknu árinu 2009. Upplýsa þarf almenning við fyrsta tækifæri um hvernig stjórnvöld hyggjast mæta þessum útgjaldaskorðum. Aukin skattheimta ætti að vera síðasta úrræði stjórnvalda, enda er ekki bætandi álögum á fjölskyldur og fyrirtæki í núverandi árferði.  Frekar ætti að leggja alla áherslu á að hagræða í rekstri ríkisins. Á því hefur verið þörf undanfarin ár, en nú sérstaklega.

Um leið er það forgangsmál að stjórnvöld skoði þá framtíðarkosti sem standa til boða í peningamálum þjóðarinnar með skynsamlegum og faglegum hætti. Núverandi peningamálastefna hefur ekki skilað góðum árangri. Frá því krónan var sett á flot og verðbólgumarkmið tekið upp hefur hagkerfið einkennst af óstöðugleika og öfgum. Þar kemur margt til en í grundvallaratriðum er þó óhætt að segja að ekki hafi tekist vel til með hagstjórn síðustu ára. Íslensk heimili og fyrirtæki hafa mátt glíma háa vexti, viðvarandi verðbólgu, sívaxandi gengissveiflur krónunnar og nú á allra síðustu vikum gjaldeyris- og fjármálakreppu. Í ljósi þess ber stjórnvöldum að framkvæma faglegt hagsmunamat á öðrum kostum í stöðunni.

Að lokum er vert að minnast á mikilvægi almenns upplýsingaflæðis af hálfu hins opinbera. Fram að þessu hefur mikið vantað upp á að stjórnvöld hafi sinnt því verkefni með fullnægjandi hætti og gera má ráð fyrir að koma hefði mátt í veg fyrir ýmis vandamál með betra streymi upplýsinga. Trúverðug og upplýst stefna af hálfu stjórnvalda er einmitt það leiðarljós sem mikilvægt er að hafa í aðstæðum eins og þeim sem nú ríkja. Líkt og stjórnvöld reiða sig á að almenningur og fyrirtæki treysti stjórnvöldum, verður traustið að vera gagnkvæmt af hálfu stjórnvalda.

Nánar er fjallað um þetta mál, auk fjölda annarra, í nýrri skoðun Viðskiptaráðs, „Aðgerðir í þágu atvinnulífs“, sem nálgast má hér.

Tengt efni

Veðjað á rangan hest: Umgjörð veðmálastarfsemi á Íslandi

Þótt veðmálastarfsemi sé sniðinn þröngur stakkur hérlendis veðja fáar þjóðir …
12. september 2024

Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti

Opinbert eftirlit stendur samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Íþyngjandi …
27. ágúst 2024

Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mars 2024