Viðskiptaráð Íslands

Stjórnvöld hvött til að endurskoða gjaldtökuheimild

Viðskiptaráð hefur skilað umsögn um frumvarp til laga um hátternisreglur í raforkuviðskiptum sem miðar að því að tryggja gagnsæi og traust á heildsölumarkaði með raforku. Ráðið fagnar markmiðum frumvarpsins og því að tekið hafi verið mið af fyrri ábendingum þess, en leggur jafnframt áherslu á að endurskoða ákvæði um gjaldtöku og að tryggja að íslensk löggjöf endurspegli nýjustu breytingar á REMIT reglugerð Evrópusambandsins.

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma á framfæri athugasemdum um ofangreint frumvarp sem er ætlað lögfesta tilteknar hátternisreglur í raforku­við­skiptum, fyrirkomulag eftirlits og skilgreiningar á hugtökum. Viðskiptaráð skilaði inn umsögn þegar málið var upphaflega lagt fram og vísar til þess eftir því sem við á.[1]

Frumvarpið byggir í meginatriðum á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1227/2011 um heildstæðan og gagnsæjan heildsölumarkað fyrir orku (e. Regulation on Energy Market Integrity and Transparency, REMIT), sem er ætlað að stuðla að trausti á orkumarkaðinum, m.a. með upplýsingaskyldu vegna innherjaupplýsinga, jöfnu aðgengi að verðmótandi upplýsingum á markaði og banni við markaðssvikum.

Í apríl 2024 voru gerðar breytingar á reglugerðinni með reglugerð nr. 2024/1106 (REMIT II). Í breytingunum var m.a. að finna skilgreiningar og leiðbeiningar um hvernig eigi að aðlaga kröfur að stærð og umfangi starfsemi, án þess að draga úr grundvallarskyldum um gagnsæi og heiðarleg viðskipti. Auk þess að hlutfallsleg nálgun er leyfð í einstökum tilfellum, m.a. hvað varðar upplýsingagjöf og tilkynningar­skyldu. Af frumvarpinu og greinargerð með því má ráða að ekki sé tekið mið af þeim breytingum, einkum þeim sem snúa smærri framleiðendum og aðilum á markaði. Viðskiptaráð hvetur til endurskoðunar á því ákvæði frumvarpsins en fagnar þó að tekið hafi verið tillit til fyrri athugasemda ráðsins um skilgreiningu á innherjasvikum að sú skilgreining hafi verið felld út úr frumvarpinu.

Með frumvarpinu er einnig lögfest heimild til gjaldtöku fyrir leyfisveitingu og eftirlit með raforkuviðskiptum og kostnaði við undirbúning og afgreiðslu leyfa og auknum eftirlitsverkefnum mætt með hækkun raforkueftirlitsgjalds. REMIT felur ekki í sér slíka gjaldtöku og hún þekkist ekki í okkar helstu samanburðarlöndum, er það m.a. vegna þess að reglurnar gera ríkar kröfur til virks innra eftirlits og tilkynninga til ytra eftirlits sem einfalda ytra eftirlit með viðskiptum á heildsölumarkaði. Viðskiptaráð hvetur til þess að gjaldtökuheimildin verði endurskoðuð og metin til samræmis við raunverulega þörf.

Reglugerðin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn en norskur réttur byggir á meginreglum reglugerðarinnar og ljóst að með fyrirliggjandi frumvarpi er ætlunin að íslenskur réttur komi til með byggja á þeim líka. Ráðið telur þetta jákvæða nálgun enda mikilvægt að framkvæmdin hér á landi verði í sem mestu samræmi við framkvæmdina í okkar nágrannalöndum. Eins eru þetta reglur sem eru í eðli sínu keimlíkar þeim reglum sem þegar gilda á fjármálamarkaði, einkum MAR reglugerðinni nr. 596/2014, sem var innleidd með lögum nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum. Viðskiptaráð telur jákvætt að frumvarpið sé fram komið en vill árétta nauðsyn þess að fyrirhugaðar breytingar verði í samræmi við fyrrgreinda REMIT reglugerð.

Ráðið styður að frumvarpið nái fram að ganga með fyrirvara um framangreindar athugasemdir.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tilvísun

1 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til breytinga á raforkulögum á 156. löggjafarþingi (apríl 2024). Slóð: https://vi.is/umsagnir/skyrari-og-skilvirkari-umgjord-um-raforkuvidskipti

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024