27. mars 2015
Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Frumvarpið kveður á um að endurgreiða skuli íþrótta- og ungmennafélögum virðisaukaskatt sem greiddur hefur verið vegna byggingar íþróttamannvirkja, bæði af vinnu og efniskaupum.
Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:
- Frumvarpið gengur gegn tillögum Viðskiptaráðs um endurbætur á fyrirkomulagi neysluskatta hérlendis og er skref aftur á bak þegar kemur að einföldun skattkerfisins og aukinni skilvirkni þess. Því leggst ráðið gegn því að það nái fram að ganga.
- Viðskiptaráð er almennt mótfallið undanþágum frá greiðslu virðisaukaskatts. Íslenska virðisaukaskattkerfið er óskilvirkt og innheimtuhlutfall hérlendis er vel undir meðaltali OECD ríkja. Það orsakast af miklu umfangi undanþága og því að margir veigamiklir vöru- og þjónustuflokkar falla undir lægra skattþrep, sem veldur því að hið almenna þrep skattsins hækkar.
- Það er mat ráðsins að vilji löggjafinn styðja í auknum mæli við íþrótta- og æskulýðsfélög ætti slíkur stuðningur að vera í formi beinna fjárframlaga en ekki endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þannig mætti betur tryggja upplýsta umræðu um ríkisfjármál og skilvirkni skattkerfisins.
Umsögnina má í heild sinni nálgast hér