Viðskiptaráð Íslands

Jafna þarf stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla

Skoðun Viðskiptaráðs á stuðningi við einkarekna fjölmiðla (mál nr. 543)

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma skoðunum sínum á framfæri um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Ráðið hefur lengi látið rekstrarumhverfi fjölmiðla sig varða, en hérlendis setur mikið umfang Ríkisútvarpsins mark sitt á rekstraumhverfi annarra fjölmiðla, bæði á auglýsingamarkaði og sem framleiðandi og kaupandi að efni. Samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla er erfið, gagnvart RÚV sem að stærstum hluta er fjármagnað af skattfé og gagnvart margvíslegum erlendum miðlum og streymisveitum. Viðskiptaráð telur að þótt að markmið málsins sé gott, að treysta stöðu einkarekinna fjölmiðla, sé verið að nálgast málið frá öfugum enda. Í því samhengi vill Viðskiptaráð koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

Jafna þarf stöðu innlendra fjölmiðla og erlendra

Viðskiptaráð telur mikilvægt að jafna stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla og leggja sömu kröfur á fyrrgreinda aðila. Skattleggja ætti erlendar efnis- og streymisveitur til samræmis við þær íslensku. Mörg Evrópuríki hafa gripið til ráðstafana vegna þessa en af einhverjum sökum hefur þessi vinna tafist á Íslandi, þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar stjórnvalda um að málið verði sett í forgang. Tæplega helmingur þess fjár sem var varið til birtingar auglýsinga árið 2021 rann til erlendra miðla. Heildargreiðslur vegna auglýsingakaupa 2021 námu 22 milljörðum króna. Þar af féllu 9,5 milljarðar í hlut erlendra miðla, eða 44%, á móti 12,3 milljörðum til innlendra miðla, eða 56%. Þessi staða undirstrikar þá brýnu þörf að jafna þurfi stöðu þessa miðla sem fyrst.

Ekki er hægt að horfa framhjá RÚV

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um markaðsaðstæður fjölmiðla á Íslandi. Fjallað er um að á síðustu árum hafi rekstrarforsendur einkarekinna fjölmiðla hér á landi versnað til muna. Taldar eru upp margar ástæður fyrir þeirri þróun, og dregur Viðskiptaráð ekki í efa að þær eigi stóran þátt í rekstrarvandanum, en telur þó skautað framhjá stórum hluta þess vanda, sem stjórnvöld skapa sjálf með eigin rekstri. Í umfjölluninni er þannig ekki minnst einu orði á Ríkisútvarpið sem Viðskiptaráð telur undarlegt í ljósi umfangs þess miðils á markaðnum og áhrifum hans á aðra miðla.

Þegar fjallað er um styrkjaumhverfið á Norðurlöndunum og að þar séu veittir bæði beinir og óbeinir ríkisstyrkir til fjölmiðla er nauðsynlegt að hafa í huga að ríkisfjölmiðlar þar eru almennt ekki á auglýsingamarkaði líkt og RÚV er hérlendis, og því er ekki hægt að bera fyrirkomulagið saman að fullu. Því er ekki að neita að fjölmiðlar hérlendis og erlendis eiga almennt í miklum rekstrarvanda vegna breyttrar fjölmiðlaneyslu og innkomu tæknirisa á auglýsingamarkaðinn. Viðskiptaráð telur þó að fyrst valið var að fara að fordæmi Norðurlandanna á annað borð hvað þessa styrki varðar, eigi einnig að tryggja hér sambærilega stöðu hvað varðar tilvist ríkismiðils á auglýsingamarkaði.

Stuðningur skattgreiðenda við RÚV

Íslenskir skattgreiðendur styðja nú þegar fjölmiðlun í ríkulegum mæli, en gert er ráð fyrir að útvarpsgjald sem rennur til Ríkisútvarpsins nemi um 5,7 ma.kr. á rekstrargrunni á þessu ári og hefur framlagið hækkað mikið undanfarin ár, bæði vegna ákvarðana um hækkun gjaldsins og vegna fjölgunar greiðenda. Að mati ráðsins er ekki réttlætanleg forgangsröðun í ríkisfjármálum að halda áfram að auka framlög til málaflokksins án þess að breyta fyrirkomulagi markaðarsins. Fjölmiðlafyrirtæki hafa bent á að það er ekki aðeins á auglýsingamarkaði sem samkeppnisstaða RÚV hefur áhrif, heldur keppir RÚV einnig við innlenda einkaaðila um dagskrárefni. Vinna þarf gegn þeirri röskun. Viðskiptaráð gerir sér grein fyrir þeim menningarverðmætum sem felast í innlendri dagskrárgerð og vilja stjórnvalda til þess að gæta að þeim. Stjórnvöld hafa í hendi sér nokkrar leiðir til þess að rækja það hlutverk með viðunandi hætti og ná um leið helstu markmiðum frumvarpsins án þess að slíkt þurfi að koma niður á heilbrigði fjölmiðlamarkaðarins.

  • Í fyrsta lagi gætu stjórnvöld takmarkað starfsemi RÚV á auglýsingamarkaði. Mýksta leiðin væri að hætta virkri auglýsingasölu, en taka við auglýsingum til birtingar, en sú sem gengur lengst væri að taka RÚV alfarið af auglýsingamarkaði. RÚV þyrfti ekki lengur að haga dagskráráherslum þannig að þær löðuðu að sér auglýsingar og hefði þannig meira svigrúm til að sinna því menningarlega hlutverki sem því er ætlað að rækja um leið og breytingarnar hefðu afgerandi jákvæð áhrif á samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla.
  • Í öðru lagi telur Viðskiptaráð tilefni til að skoða nánar hugmyndir um að leyfa útvarpsgjaldinu að renna að hluta til annarra fjölmiðla en RÚV. Þannig hafa verið viðraðar hugmyndir um að tekið verði upp sambærilegt kerfi og þekkist með sóknargjöld þar sem almenningur gæti á einstaklingsgrundvelli ákveðið til hvaða fjölmiðils útvarpsgjaldið rennur. Sú leið hefur einnig þann kost að horfa mætti til þeirra skilyrða sem þegar hafa verið sett í lögum um hæfi fjölmiðla til þess að þiggja útvarpsgjald.
  • Í þriðja lagi mætti setja á fót samkeppnissjóð til þess að styðja við innlenda dagskrárgerð. Slíkir samkeppnissjóðir þekkjast á ýmsum málefnasvipðum þar sem stjórnvöld telja samfélagsleg verðmæti að finna og er Kvikmyndasjóður Íslands dæmi um slíkt. Þannig myndi RÚV keppa um opinbert fjármagn í slíkri dagskrárgerð á jafnræðisgrundvelli við aðra fjölmiðla í landinu.

Viðskiptaráð telur að aðgerðir ríkisins hafi skekkt rekstrar- og samkeppnisstðu einkarekinna fjölmiðla og ekki sé lengur hægt að horfa framhjá þeim vanda sem umfang Ríkisútvarpsins skapar á fjölmiðlamarkaði. Stjórnvöld þurfa að stuðla að bættu rekstrarumhverfi á fjölmiðlamarkaði með því að endurskoða hlutverk RÚV, en auk þess grípa til aðgerða til að jafna stöðu erlendra og innlendra miðla.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024