Kjöt og ostar, bæði innlendir og innfluttir, eiga það sameiginlegt að vera vörur sem neytt er minna af þegar kreppir að. Í staðinn kaupir fólk meira af ódýrari mætvælum og virðist það vera í takt við upplifun stjórnenda matvöruverslana.
Viðskiptaráð Íslands þakkar fyrir tækifærið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um breytingar á búvörulögum er varða úthlutun tollkvóta. Viðskiptaráð hefur lengi talað fyrir því að fyrirkomulag úthlutunar tollkvóta sé endurskoðað og studdi þær breytingar sem gerðar voru á kerfinu í lok síðasta árs, þó að ráðið hefði viljað sjá enn stærra skref tekið í átt að auknu frelsi í innflutningi. Því eru vonbrigði að horfið sé frá þeim jákvæðu breytingum. Ef bregðast á við rekstrarvanda í landbúnaði vegna kórónuveirukreppunnar er að mati ráðsins rétt að gera það með sambærilegum hætti og í öðrum atvinnugreinum, en ekki með samkeppnishömlum sem eru til þess fallnar að hækka verð til neytenda og viðskiptavina innflytjenda, eins og hótela og veitingahúsa.
Nýja fyrirkomulagið hafði góð áhrif
Það fyrirkomulag sem tók gildi þann 1. janúar 2020, jafnvægisútboð, var lagt til með hliðsjón af tillögum starfshóps um endurskoðun á regluverki um úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara. Í vinnu sinni lagði umræddur starfshópur áherslu á að neytendur myndu njóta aukins markaðsaðgangs erlendra landbúnaðarvara, í formi lægra vöruverðs og fjölbreyttara vöruúrvals. Skortur á slíkum áherslum hefur einkennt tollakerfið á Íslandi þar sem tollar hafa verið háir í alþjóðlegum samanburði, neyslustýringaráhrif þeirra mikil og skilvirkni í framkvæmd lítil.
Breytingin hafði góð áhrif til lækkunar vöruverðs til neytenda, en þegar fyrsta útboðið á tollkvótum með nýrri aðferð var haldið síðastliðið vor lækkaði útboðsgjald fjölmargra tegunda búvara frá síðasta útboði sem fór fram með eldri aðferð undir lok árs 2019. Með fyrirliggjandi frumvarpi á þó að snúa tímabundið aftur til gamla fyrirkomulagsins, á kostnað samkeppni og neytenda.
Ófullnægjandi forsendur
Samkvæmt greinargerð frumvarpsins eru forsendur breytinganna þær að aðstæður nú séu aðrar en þegar úthlutun tollkvóta var breytt fyrir yfirstandandi ár. Þá hafi verið gert ráð fyrir um 2 milljónum ferðamanna sem ekki koma til landsins nú vegna kórónaveirunnar og því dregin sú ályktun að það sé ljóst „að eftirspurn eftir matvælum hefur dregist talsvert saman en innflutningur samkvæmt tollkvótum hefur á sama tíma haldist óbreyttur.“
Við þetta má gera í það minnsta tvær athugasemdir. Í fyrsta lagi er villandi að setja fjölda ferðamanna fram í þessu samhengi þegar kemur að matvælaframleiðslu. Ef gert er ráð fyrir að hver af þessum 2 milljón ferðamönnum hafi dvalið á landinu í 5-6 daga þýðir það að um 30 þúsund ferðamenn voru á landinu á hverjum tíma. Á móti kemur að Íslendingar ferðast ekki til útlanda svo ætla má að fækkun neytenda á matvörumarkaði hafi verið vel innan við 10% og í takti við einkaneyslu almennt. Það er því vel í lagt að tala um að eftirspurn hafi dregist „talsvert“ saman.
Í öðru lagi sýna hagtölur allt annað en að innflutningur tollkvótavara hafi haldist óbreyttur. Hvort sem horft er á mars til október, eftir að kreppan skall á, eða janúar til október virðist hafa verið verulegur samdráttur á innflutningi tollkvótavara milli ára eins og neðangreind mynd sýnir. Breytingin eftir flokkum er misjöfn en stóra myndin er skýr. Úthlutun tollkvóta á árinu bendir til þess að myndin gæti breyst þegar árið er liðið, en í öllu falli styðja fyrirliggjandi gögn ekki við greinargerðina. Ef horft er á matvælainnflutning almennt er aftur á móti hægt að segja að innflutningurinn sé svo til óbreyttur.
Ekki innflutningur sem þrengir að heldur kreppan sjálf
Kjöt og ostar, bæði innlendir og innfluttir, eiga það sameiginlegt að vera vörur sem neytt er minna af þegar kreppir að. Í staðinn kaupir fólk meira af ódýrari mætvælum og virðist það vera í takt við upplifun stjórnenda matvöruverslana. Ofangreind gögn styðja þetta þar sem innflutningur matvöru í tonnum talið hefur almennt lítið breyst, en dregist saman í tollkvótavörum. Tollkvótar breyta ekki þessu vali neytenda og það er óljóst hvort og hversu mikið neytendur munu færa neyslu sína yfir í íslenskar landbúnaðarvörur ef dregið verður úr framboði á erlendum landbúnaðarafurðum. Hætt er við að ef undirliggjandi markmið stjórnvalda er að styðja við innlenda framleiðendur, séu þau í það minnsta að bregðast við stöðunni með mjög ómarkvissum hætti.
Minni samkeppni ekki lausn á vanda landbúnaðarins
Neikvæð áhrif vegna kórónuveirunnar eru víðtæk. Niðursveifla er í miklum meirihluta atvinnugreina og í mörgum tilfellum alvarleg.[1] Viðskiptaráð vill veg innlendrar atvinnustarfsemi sem mestan, en er mótfallið því að staða innlendra matvælaframleiðenda sé látin bitna meðal annars á veitingastöðum og neytendum með fyrirkomulagi sem er til þess fallið að hækka vöruverð. Viðskiptaráð hvetur því stjórnvöld til að leita annarra leiða, sem ekki skerða samkeppni og valfrelsi, til að bregðast við sérstökum og tímabundnum vanda innlendra matvælaframleiðenda.
[1]Sjá umfjöllun Viðskiptaráðs: https://www.vi.is/greining/ekki-adeins-ferdatjonustukreppa