Viðskiptaráð Íslands

Rafrænar skuldaviðurkenningar verði ekki einskorðaðar við neytendur

Umsögn Viðskiptaráðs við frumvarp til laga um rafrænar skuldaviðurkenningar (mál nr. 980)

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um rafrænar skuldaviðurkenningar. Breytingunum í frumvarpinu er ætlað að auðvelda lánveitendum og neytendum að ganga frá tilteknum lánaviðskiptum með rafrænum hætti, þannig að ekki verði lengur þörf á að framvísa veðskuldabréfum vegna íbúðarkaupa og bílalána á pappírsformi til þinglýsingar. Þess í stað verði notast við rafrænar skuldaviðurkenningar. Með því verði hægt að afgreiða drjúgan hluta lánsviðskipta með rafrænum hætti. Viðskiptaráð fagnar þessari breytingu heilshugar og telur hana til þess fallna að lækka kostnað við lánveitingar og spara tíma og fyrirhöfn við þinglýsingar, til góðs fyrir bæði lánveitendur og neytendur.

Mikilvægt að útvíkka gildissviðið

Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að fyrst um sinn verði rafrænar skuldaviðurkenningar bundnar við fasteigna- og bílalán til neytenda. Lagt er til að sú takmörkun gildi til 31. desember 2025 eða þar til meiri reynsla verður komin á lánaformið og er fjallað um það í greinargerð að sú takmörkun geti varla talist hamlandi í reynd. Viðskiptaráð telur skorta sterkari rök fyrir því að rafrænar skuldaviðurkenningar verði ekki teknar upp strax í lánsviðskiptum við lögaðila. Í umfjöllun um bráðabirgðaákvæði í greinargerð segir að „lagt er til að hefja vegferðina með þessum tegundum lána, enda er um að ræða þær lánategundir sem að jafnaði hafa mesta þýðingu fyrir almenning“. Viðskiptaráð telur þvert á móti að það hafi mikla þýðingu fyrir atvinnulífið að einfalda lánsviðskipti við lögaðila sem eykur skilvirkni í atvinnulífinu og sparar kostnað.

Með því að bíða með að heimila rafrænar skuldaviðurkenningar við t.a.m. bílalán til lögaðila er verið að auka verulega flækjustig í viðskiptum bankanna þar sem notast þarf við tvíþætt verklag við lánveitingar og er það vissulega hamlandi, þvert á móti því sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins. Annars vegar verða afgreiddar rafrænar skuldaviðurkenningar og hins vegar notað hefðbundið verklag með skjöl á pappír, þrátt fyrir að um efnislega sambærilega skuldbindingar sé að ræða. Viðskiptaráð leggur því til að bráðabirgðaákvæði frumvarpsins verði fellt brott og gildissvið frumvarpsins ekki einskorðað við fasteignalán og bílalán til neytenda.

Tengt efni

Ný sjálfbærnitilskipun hefur áhrif á flestöll fyrirtæki

Ný tilskipun Evrópusambandsins um sjálfbærnireikningsskil mun hafa áhrif á …
10. september 2024

Þríþættar framfarir en alvarlegur annmarki

Ný frumvarpsdrög mennta- og barnamálaráðuneytisins um námsmat fela í sér …
3. september 2024

Sex tillögur til að auka skilvirkni leyfisveitinga

Viðskiptaráð Íslands fagnar áframhaldinu vinnu stjórnvalda við að auka …
14. ágúst 2024