29. nóvember 2016
Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til innanríkisráðuneytisins vegna breytinga á þinglýsingarlögum. Með drögunum er lagður grundvöllur að rafrænum þinglýsingum skjala en nái frumvarpsdrögin fram að ganga verður mögulegt að þinglýsa öllum skjölum rafrænt. Viðskiptaráð fagnar því að loks standi til að færa þinglýsingar í nútímalegt horf hér á landi og tekur ráðið undir með ráðuneytinu að brýnt sé að breyta formlegu og stundum seinvirku kerfi yfir í hraðvirka og notendavæna rafræna þjónustu.
Umsögnina má í heild sinni nálgast hér
Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:
- Verði frumvarpsdrögin að lögum mun Ísland verða eitt þinglýsingarumdæmi og því einungis einu sýslumannsembætti falin framkvæmd þinglýsinga. Viðskiptaráð fagnar þessari rekstrarhagræðingu en ráðið hefur fjallað um mikilvægi þess að auka framleiðni í opinberum rekstri til að nýta megi skattfé með sem bestum hætti. Ráðið áréttar þó mikilvægi þess að sú hagræðing sem næst með breytingum þessum skili sér aftur til ríkissjóðs en verði ekki ráðstafað í önnur minna aðkallandi verkefni innan sýslumannsembættanna.
- Mikilvægt er að skýr tímalína liggi fyrir um innleiðingu rafrænna þinglýsinga. Það veitir aðgerðinni töluvert aðhald ef fyrirfram liggur fyrir hvenær heimila eigi rafrænar þinglýsingar á tilteknum tegundum skjala til viðbótar við veðskjöl. Viðskiptaráð vonast til að framvinda verkefnisins muni ganga hratt og örugglega svo að þinglýsa megi sem flestum tegundum skjala með rafrænum hætti eins fljótt og unnt er.