Viðskiptaráð Íslands

Bætt aðgengi að innfluttum vörum utan EES

Verði þessi breyting að veruleika verður ekki einungis hægt að leggja af sérmerkingar með límmiðum, og lækka þannig kostnað og vöruverð, heldur er einnig hægt að veita ítarlegri upplýsingar en komast fyrir á prentuðum miða.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að breytingu á reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Viðskiptaráð styður málið heilshugar enda er um að ræða mál sem mun tryggja betra aðgengi neytenda að upplýsingum sem getur jafnframt lækkað vöruverð.

Við fyrstu sýn munu breytingarnar sérstaklega bæta aðgengi vara sem fluttar eru inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ástæðan er sú að þær þarf yfirleitt að merkja sérstaklega með álímdum miða samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Þessar endurmerkingar kosta sitt og hækka því vöruverð, fyrir utan að vera viðskiptahindrun gagnvart ýmsum framleiðendum utan ESB. Í drögunum er lagt til að neytendur nálgist upplýsingarnar með því að skanna strikamerki eða kóða á vörunni með appi í síma eða búnaði í verslun ef þeir nota ekki snjallsíma. Verði þessi breyting að veruleika verður ekki einungis hægt að leggja af sérmerkingar með límmiðum, og lækka þannig kostnað og vöruverð, heldur er einnig hægt að veita ítarlegri upplýsingar en komast fyrir á prentuðum miða. Þannig er til dæmis hægt að gefa nákvæmari upplýsingar um vöruna, kolefnisspor eða rekjanleika. Svo eiga neytendur að geta sérsniðið appið að eigin þörfum, svo sem ef þeir vilja að forritið vari þá við ákveðnum innihaldsefnum.

Í nokkrum umsögnum um málið hafa komið fram áhyggjur af misræmi milli áherslna ráðuneytisins og regluverks ESB. Breytingin gengur enda lengra en framkvæmdastjórn ESB gerir á þessu stigi, og er ekki búist við að verði breyting þar á næstu árum. Engin tillaga um breytingar er í farvatninu hjá sambandinu fyrr en hugsanlega árið 2024, og þá er óvíst hvað gæti falist í slíkri tillögu eða hversu langt hún myndi ganga. Í öllu falli myndi svo taka nokkur ár frá framlagningu málsins að fá breytingarnar samþykktar, ekki síst sökum þess að ríki ESB eru misvel í stakk búin til þess að innleiða stafræna þjónustu. Það er því útlit fyrir að lægsti samnefnarinn ráði þróun þessara mála innan sambandsins.

Tilgangur merkingareglugerðarinnar er að tryggja aðgang neytenda að réttum upplýsingum. Það markmið má vel uppfylla með nútímatæknilausnum, sem geta þá um leið dregið úr kostnaði, lækkað vöruverð og veitt neytendum á Íslandi betri upplýsingar. Það er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir einhvers konar aðlögunartímabili til að tryggja að öll viðmið séu uppfyllt, en Viðskiptaráð telur málið horfa til framfara fyrir fyrirtæki og almenning og mælir með því að það fái framgang.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024