Viðskiptaráð Íslands

Dæmalaus aðför Samkeppniseftirlitsins að upplýstri umræðu

Í ljósi tilkynningar Samkeppniseftirlitsins telja Samtök atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráð Íslands (VÍ) sig knúin til að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Meginhlutverk hagsmunasamtaka fyrirtækja er að standa vörð um hagsmuni íslensks atvinnulífs. Slík samtök gæta þess í hvívetna að fylgja lögum og reglum. Í umræðu út á við er eðlilegt að þau ræði ýmis mál er tengjast félagsmönnum sínum og íslensku atvinnulífi í heild. Þar má til dæmis nefna umræðu sem snýr að launakjörum, kvöðum stjórnvalda á borð við gjöld og leyfisveitingar, hrávöruverði og fleiri atriðum sem öll geta haft áhrif á almennt verðlag. Að benda á þá staðreynd að þróun varðandi fyrrgreind atriði geti leitt til verðhækkana felur hvorki í sér brot á samkeppnislögum né hvetur það til þeirra. Í raun er óumflýjanlegt að hagsmunasamtök fyrirtækja láti sig verðlag í landinu varða þegar ýmsar kvaðir sem stjórnvöld setja hafa áhrif á verðlag á þeim vörum og þjónustu sem félagsmenn þeirra bjóða upp á. Samtök atvinnulífsins standa til að mynda fyrir ársfjórðungslegri könnun, í samstarfi við Gallup og Seðlabanka Íslands, meðal stærstu fyrirtækja landsins um stöðu og horfur í efnahagslífinu. Þar er meðal annars fjallað um verðlag og áhrifaþætti þess og eru niðurstöðurnar nýttar við vinnslu Peningamála Seðlabankans. Á að skilja tilkynningu Samkeppniseftirlitsins sem svo að hagsmunasamtök fyrirtækja megi ekki lengur tjá sig um efni þessarar mikilvægu könnunar?

Í þeim tilfellum sem Samkeppniseftirlitið vísar til er um að ræða lýsingar á opinberum hagtölum en ekki hvatningu til verðhækkana. Að hrávöruverð og erlend verðbólguþróun almennt hafi áhrif á neysluverð í einstaka löndum er vel þekkt staðreynd í þjóðhagfræði. Það er einnig þekkt að slíkar verðbreytingar komi fram með tímatöf. Í þjóðhagslíkani Seðlabankans er það t.d. metið út frá sögulegum gögnum að áhrif breytinga á viðskiptakjörum á innlent verðlag, t.d. vegna breytinga á innflutningsverðlagi, nái hámarki rúmu ári síðar. Meðal annars vegna þessa hafa Seðlabankinn og fleiri spáaðilar ítrekað hækkað verðbólguspár sínar undanfarið. Þar eru áhrif hækkandi olíuverðs hvað greinilegust. Áhrif erlendrar verðþróunar á neysluverð eru ennfremur til staðar skv. tiltölulega nýlegum erlendum rannsóknum, sjá t.d. hér og hér. Að mati SA og VÍ gengur Samkeppniseftirlitið gegn upplýstri umræðu í landinu ef banna á aðilum að tjá sig um efnahagslegar staðreyndir og það sem rannsóknir hafa sýnt fram á áratugum saman.

Engin ákvæði samkeppnislaga banna samtökum fyrirtækja þátttöku í opinberri umræðu. Það er mat SA og VÍ að með aðfinnslum sínum sé Samkeppniseftirlitið komið langt út fyrir lögbundið hlutverk sitt. Hversu langt má ganga? Hverjir mega tjá sig? Verða settar skorður á Seðlabankann að tjá sig um verðlag í landinu? Eða greiningaraðila, t.d. innan viðskiptabankanna? Mega hagsmunasamtök fyrirtækja tjá sig um vaxtahækkanir?

Þá má líka benda á það sem liggur fyrir samkvæmt markmiði ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um að verðbólga skuli vera sem næst 2,5%. Það felur í sér að verðlag á neysluvörum muni, samkvæmt hinu opinbera, hækka að jafnaði. Ef fyrirtæki og félög sem þau tilheyra mega ekki tjá sig um það sem samræmist þessu opinbera markmiði er fokið í flest skjól.

Norsku vinnuveitendasamtökin, NHO, birtu greiningu á horfum í norsku atvinnulífi þann 5. október sl. Þar kemur skýrt fram að félagsmenn búast við verðhækkunum. Til dæmis sögðu 24% svarenda að þeir myndu hækka verð vegna hækkunar aðfanga og 30% reiknuðu með meiri verðhækkunum en árið áður. Ekki er vitað til þess að NHO megi ekki birta þessar niðurstöður. Sambærilegt þessu framkvæma SA, Seðlabankinn og Gallup áðurnefnda könnun á verðbólguvæntingum 400 stærstu fyrirtækja Íslands þar sem kemur fram að 56% telji að aðfangaverð hafi mest eða næstmest áhrif á verðhækkanir. Þegar sagt er að verðhækkanir séu líklegar er það því ekki gripið úr lausu lofti, heldur meðal annars vísað í það sem kemur frá félagsmönnum og hefur allar götur þar til nú þótt eðlilegur hluti af efnahagsumræðunni.

Loks ber að nefna að þau dæmi sem vísað er í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins, t.d. um að lagðar hafi verið sektir á Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu árið 2008 vegna aðgerða sem stuðluðu að verðsamráði á matvöru, eru í engu samhengi við þau ummæli sem fallið hafa í umræðu um hækkun hrávöruverðs. Virðast þau því sett fram til að skapa hughrif sem eiga sér enga stoð í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið, um miklar hækkanir á hrávöruverði og flutningskostnaði, sem hafa verið umfjöllunarefni fjölmiðla, greiningaraðila og ýmissa samtaka um allan heim.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024