Samrunaeftirlit er jafnvægislist milli virkrar samkeppni og framþróunar. Á Íslandi hefur þetta jafnvægi raskast en ferlið er þyngra og flóknara en í nágrannaríkjum og leiðir oftar til íhlutunar samkeppnisyfirvalda. Einfalda þarf reglur, hækka þröskulda og létta á framkvæmd samrunaeftirlits til að tryggja fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi sem styður við nýsköpun og hagvöxt.
Virk samkeppni er ein af undirstöðum góðra lífskjara þar sem hún drífur áfram framleiðni, framtak og þjónustu. Hún hvetur jafnframt til nýsköpunar, ýtir undir aukið úrval og þrýstir verðum niður. En vöxtur og framþróun fyrirtækja er ekki síður mikilvæg undirstaða velsældar. Samstarf fjölmennari hópa eykur hagsæld í gegnum aukna stærðarhagkvæmni, sérhæfingu, nýsköpun og greiðara samstarf innan stærri eininga. Farsælt samkeppniseftirlit nær réttu jafnvægi á milli þessara þátta.[1]
Samrunar eru verkfæri fyrirtækja og stjórnenda þeirra til að vaxa, aðlagast breyttum aðstæðum, og standast alþjóðlega samkeppni. Auk þess auka samrunar viðnámsþrótt fyrirtækja gagnvart áföllum. Í vestrænum ríkjum eru stærri samrunar almennt tilkynningarskyldir til samkeppnisyfirvalda, sem meta hvort þeir séu til þess fallnir að raska samkeppni. Þar reynir á framangreinda jafnvægislist.
Þrjú þrep samrunaeftirlits
Á Íslandi er samruni tilkynningarskyldur til Samkeppniseftirlitsins (SKE) ef velta samrunaaðila nær vissum veltumörkum (mynd 1). Ferlið getur hafist á óformlegum forviðræðum en þar geta samrunaaðilar undirbúið tilkynningu í samráði við SKE. Tímalengd forviðræðna er misjöfn eftir málum en engir tímafrestir gilda á þessu stigi.
Samrunaferli hefst formlega á fasa I þegar SKE metur tilkynningu um samruna fullnægjandi.[2] Fasi I má að hámarki taka 25 virka daga. Að honum loknum er samruni annað hvort samþykktur, með eða án skilyrða, eða málinu vísað áfram í fasa II til ítarlegri rannsóknar. Í fasa II hefur SKE allt að 90 virka daga til viðbótar til að ljúka málinu. Að fasa II loknum geta mál endað með eða án íhlutunar af hálfu SKE.[3]
Samrunaeftirlit tekur þrjá mánuði að jafnaði
Væntur málsmeðferðartími tilkynningarskyldra samruna er að jafnaði 67 virkir dagar hjá Samkeppniseftirlitinu, eða rúmir 3 mánuðir (mynd 2). Með því að margfalda hlutfall mála sem fer á hvert stig með meðaltímalengd mála á viðkomandi stigi fæst væntur tími málsmeðferðar sem fyrirtæki mega búast við að jafnaði í málsmeðferð samrunamáls. Hafa þarf í huga að ef mál krefjast ítarlegrar rannsóknar má búast við því að ferlið taki mun lengri tíma.
Ferlið skiptist í fjögur stig en hlutfall mála, meðallengd og væntur dagafjöldi þeirra er misjafn. Hraði og umfang málsmeðferðar getur haft mikið að segja um hvort samruni skili ávinningi. Löng málsmeðferð getur útheimt mikil bein útgjöld en óbeinn kostnaður getur einnig verið mikill, t.d. ef fjármögnun fellur niður eða fyrirtæki missa af tækifærum á nýjum mörkuðum á meðan málsmeðferð stendur.[4] Þetta getur verið sérlega hamlandi á mörkuðum sem hreyfast og þróast hratt eins og til að mynda í upplýsingatækni.[5]
Fallið frá 12 samrunaáformum árlega
Samkeppniseftirlitið áætlar að árlega sé fallið frá 12 samrunaáformum vegna samkeppnislaga og framkvæmd samrunaeftirlits.[6] Skýringar sem kunna að búa þar að baki eru tvær. Annars vegar að fyrirtæki telji samrunann samræmast samkeppnislögum en umstang og kostnaður vegna málsmeðferðar hjá SKE þurrki út væntan ávinning samrunans.
Hins vegar getur verið að fyrirtæki telji líkur til þess að samruninn verði ekki samþykktur og falli því frá áformunum. Samkvæmt Samkeppniseftirlitinu er þó gengið út frá því að í öllum tilvikum sé um „samkeppnishamlandi samruna“ að ræða ef ytri þættir koma í veg fyrir samrunaáform.[7]
Í framangreindu endurspeglast fórnarkostnaður íþyngjandi eða ófyrirsjáanlegs regluverks sem getur haft hamlandi áhrif á vöxt, fjárfestingu og hagræðingu fyrirtækja, jafnvel í tilvikum þar sem samruni gæti verið bæði lögmætur og hagkvæmur út frá efnahagslegu sjónarmiði.
Ísland meira íþyngjandi í samrunaeftirliti
Ísland sker sig úr á nokkrum mælikvörðum í samrunaeftirliti samanborið við önnur Norðurlönd (mynd 3).[8] Í fyrsta lagi eru veltumörk tilkynningarskyldra samruna fimmfalt hærri annars staðar, sem þýðir að fleiri samrunar þurfa að fara í gegnum rannsóknarferli hérlendis. Í öðru lagi fór um sjöfalt hærra hlutfall samrunamála upp á fasa II hjá SKE á Íslandi á árunum 2015-2023. Í þriðja lagi lauk um fimmfalt fleiri málum með íhlutun á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd yfir sama tímabil.
Heildarveltumörk á Íslandi fyrir tilkynningarskyldu samruna eru 3 ma. kr. en þau eru fjórfalt til sexfalt hærri á hinum Norðurlöndunum. Veltumörkin voru síðast hækkuð árið 2021 en hafa ekki fylgt almennri verðlagsþróun og þar með lækkað að raungildi.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um samrunaeftirlit SKE frá árinu 2022, segir að „séu mörkin ákvörðuð of lágt getur það komið með neikvæðum hætti niður á getu stofnunarinnar til að sinna öllum lögbundnum verkefnum sínum með markvissum, hagkvæmum og skilvirkum hætti í samræmi við faglega forgangsröðun verkefna m.t.t. áhættu og ábata.“[9]
Þá fellur einnig kostnaður á þá aðila sem þurfa að undirbúa samrunatilkynningu og standa í málsmeðferð jafnvel þótt samruninn sé lítill eða ekki til þess fallinn að raska samkeppni.
Kallheimild ófyrirsjáanleg
Hækkun veltumarka vegna tilkynningarskyldra samruna er hættulítil ráðstöfun þar sem SKE hefur þegar heimild til að kalla eftir tilkynningu smærri samruna telji það verulegar líkur á að hann geti raskað samkeppni, svokallaða kallheimild (e. „call-in“).
Í þessari heimild felst ákveðinn varnagli vegna hugsanlegra samkeppnishamlandi áhrifa lítilla samruna en beiting slíkrar heimildar þarf aftur á móti að vera með fyrirsjáanlegum hætti. Á Norðurlöndunum hafa verið tilgreind skýr viðmið um hvenær beita má heimildinni og innan hvaða tímamarka.[10] Íslenska samkeppnislöggjöf skortir aftur á móti skýr tímamörk, afmörkun á umfangi heimildarinnar og leiðbeiningar um þær aðstæður sem kalla á beitingu hennar. Slíkt veldur óvissu um hvort samruni sem fellur undir viðmiðunarmörk kunni engu að síður að verða tekinn til skoðunar, jafnvel þegar langt er liðið frá framkvæmd hans.[11]
Ákvörðun um að færa mál upp á fasa II er íþyngjandi
Á undanförnum árum hefur Samkeppniseftirlitið oftast fært mál upp á fasa II samanborið við Norðurlönd (mynd 4). Hlutfallið var að jafnaði 39% á Íslandi meðan meðaltal mála í fasa II var 6% á Norðurlöndum. Ýmsar ástæður hafa verið gefnar fyrir því að mál fari oftar upp á fasa II á Íslandi.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir SKE að það telji að „rekstrarsvigrúm hafi bein áhrif á getu stofnunarinnar til að afgreiða samrunamál í I. fasa“.[12] Þá hafi forviðræður ekki náð jafn mikilli fótfestu hér og annars staðar í Evrópu sem skýri fjölda mála í fasa II hér á landi.[13]
Aðrir hafa bent á að rannsókn í fasa I virðist stundum takmörkuð og að tilfærsla mála á fasa II endurspegli frekar þörf SKE fyrir lengri málsmeðferðarfrest en að frekari rannsókn sé nauðsynleg.[14] Ýmislegt bendir til þess að ákvarðanir SKE um að færa mál til ítarlegri rannsóknar séu matskenndar og ógagnsæjar.
Í fyrsta lagi segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar að SKE hafi útbúið gátlista til viðmiðunar við gerð skaðakenninga í samrunamálum um hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo mál fari á fasa II. [15] Sá listi er aftur á móti hvorki opinber né aðgengilegur samrunaaðilum. Tilvist slíks gátlista eykur ekki gagnsæi eða áreiðanleika ákvarðana um að færa mál á fasa II nema hann sé aðgengilegur.
Í öðru lagi eru engin lögbundin skilyrði fyrir því að færa mál upp á fasa II. Slíkt þekkist þó í norrænni löggjöf, t.a.m. í norskum samkeppnislögum, þar sem tilgreint er að fyrir hendi þurfi að vera rökstuddur grunur eða tilefni til að ætla að samruni geti haft samkeppnishamlandi áhrif til þess að rannsókn færist á fasa II.[15] Sambærileg skilyrði er að finna í evrópskum samrunareglum, um að samruni skuli rannsakaður ítarlega þegar hann gefur tilefni til alvarlegs vafa um hvort hann hafi í för með sér samkeppnishamlandi áhrif.[16]
Á Íslandi er rökstuðningsskylda stjórnvalda bundin við endanlega niðurstöðu stjórnsýslumáls og því er ekki skylda til að rökstyðja ákvörðun um að vísa máli á fasa II. Á Norðurlöndunum er aukið gagnsæi og áreiðanleiki tryggt á meðan meðferð samrunamála stendur ýmist með skýrum lagaákvæðum, leiðbeiningum eða almennum reglum stjórnsýsluréttar.[17] Í rökstuðningi þarf m.a. að koma fram á hvaða lagaheimild ákvörðun um að vísa máli á fasa II byggir, hvaða málsatvik og gögn hafi haft úrslitaþýðingu, hvernig viðkomandi markaður er afmarkaður og hvaða mat hefur farið fram á samkeppnislegum áhrifum samrunans.
Forviðræður framhlaða vinnu á samrunaaðila
Málum sem hefur lokið á fasa II hefur fækkað frá því að reglur um forviðræður tóku gildi árið 2020 (mynd 5). Ávinningur getur falist í því að leggja grunn að samrunatilkynningu í forviðræðum, en forviðræður geta ýmist flýtt fyrir málsmeðferðinni eða „fært fram málsmeðferðartíma“ í samrunamálum.[19] Þannig getur þróunin gefið falska mynd af aukinni skilvirkni í málsmeðferð samrunamála af nokkrum ástæðum.
Í fyrsta lagi gilda engir lögbundnir tímafrestir á forviðræðustigi og því er ekki tryggt að ferlið leiði til styttri málsmeðferðartíma. Þvert á móti getur forviðræðustigið orðið tafsamt og framhlaðið vinnu á samrunaaðila fram fyrir lögbundna fresti og seinkað því að málsmeðferð hefjist formlega, sérstaklega ef gagnaöflun og samskipti dragast á langinn.
Í öðru lagi getur SKE með forviðræðum stýrt hvenær það tekur á móti nýjum samrunamálum. Það sést t.d. þar sem SKE hefur síðastliðin tvö sumur tilkynnt á vefsíðu sinni að stjórnvaldið taki ekki við nýjum forviðræðum eða samrunatilkynningum, frá miðjum júní fram í ágúst, vegna tafa og sumarleyfa.[20] Slík framkvæmd getur haft í för með sér að fyrirtæki þurfi að fresta upphafi samrunamáls um marga mánuði án þess að lagaleg skylda standi til þess.
Í þriðja lagi eru engar leiðbeiningar til um ferli forviðræðna og hvaða upplýsingar samrunaaðilar þurfa að leggja fram í forviðræðum til þess að greiða fyrir málinu. Önnur Norðurlönd hafa sett fram leiðbeiningar um forviðræður þar sem m.a. er leitast við að skýra þau gögn sem þarf að leggja fram, tímaramma samskipta og hvernig formleg samskipti, fundir og endurgjöf eiga að fara fram.[21] Slíkar leiðbeiningar hafa einnig verið settar af hálfu ESB.[22]
Fullnægjandi tilkynning háð mati SKE
Í tilkynningu um samruna skulu samrunaaðilar leggja fram nauðsynlegar upplýsingar um samrunann og áhrif hans á samkeppni.[23] Reglur gilda um hvaða upplýsingar ber að leggja fram og hversu ítarlegar þær þurfa að vera eftir eðli máls, en er þó háð mati stjórnvaldsins í hverju máli hvort fram komnar upplýsingar teljist fullnægjandi.[24]
Á samrunaaðilum hvílir rík skylda til að veita upplýsingar og afhenda gögn við meðferð samrunamála að viðlögðum sektum.[25] Samkeppniseftirlitið getur því farið fram á frekari gögn eða upplýsingar sem nauðsynlegar eru að mati stjórnvaldsins, sem í reynd getur verið umfangsmikið og erfitt fyrir aðila máls að afla. Setur það fyrirtæki í erfiða stöðu, enda er ekki útilokað að tafir eða skortur á gögnum gætu verið túlkaðar sem merki um ósamvinnu eða leynd upplýsinga af hálfu fyrirtækja.
Mikilvægt er að gagnabeiðnir séu í samræmi við umfang og eðli samrunans og aðstæður hverju sinni, þannig að fyrirtæki séu ekki beitt óþarflega íþyngjandi kröfum við meðferð máls. Samkeppniseftirlitið nýtur víðtækra úrræða til upplýsinga- og gagnaöflunar, en við framkvæmd og nýtingu þeirra verður að gæta meðalhófs.[26]
Samrunaaðilar hafa ríka hagsmuni af því að málsmeðferð samrunans gangi hratt og örugglega fyrir sig. Í því samhengi kristallast mikilvægi þess að SKE sinni leiðbeiningar- og upplýsingahlutverki sínu af kostgæfni svo að fyrirtæki geti lagt fram nauðsynlegar upplýsingar, áttað sig á hvaða kröfur eru gerðar til þeirra og hvernig málsmeðferðin fer fram.
Samstarfsferli eða eftirlitsþrep?
Í könnun eftirlitsskyldra aðila um hversu vel eftirlitsstofnanir uppfylla leiðbeiningahlutverk sitt var SKE í síðasta sæti af 16 stofnunum (mynd 6). Nýrri könnun um mat á framkvæmd eftirlits meðal iðnaðarfyrirtækja leiddi áþekka niðurstöðu í ljós þar sem SKE var í næst síðasta sæti á eftir Skipulagsstofnun.[27]
Þá bendir Ríkisendurskoðun á í úttekt sinni að sérstakt tilefni sé til að efla hagnýtt leiðbeiningaefni í samrunamálum. Þar ætti m.a. að skýra samskiptaleiðir við stofnunina ásamt formi þeirra, meginsjónarmiðum og verklagi við greiningu og rannsókn mála, tilhögun gagnaskila og skilvirkra forviðræðna og verklagi við mótun og eftirfylgni samrunaskilyrða.
Íslensk samkeppnisyfirvöld hafa oftast beitt íhlutunum
SKE beitti oftast íhlutunum í samrunamálum á Norðurlöndum árin 2015-2023 (mynd 7). Á tímabilinu lauk SKE 16% samrunamála með íhlutunum á meðan hlutfallið var 1-7% á Norðurlöndunum.[28] Af öllum íhlutunum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) á tímabilinu 2015-2023 áttu 7,6% þeirra sér stað á Íslandi. Til samanburðar voru íhlutanir samkeppnisyfirvalda hinna Norðurlandanna til samans 10,3% innan EES.[29]
Tíðari íhlutanir á Íslandi hafa verið skýrðar með vísan til smæðar markaðarins og meiri líkum á fákeppni.[30] Engu að síður vekur athygli að munurinn milli Íslands og Norðurlandanna skuli vera jafn mikill og raun ber vitni.
Ríkir alltaf sátt um sátt?
Flestar íhlutanir eru í formi svokallaðrar sáttar samrunaaðila við SKE, en þá er samruni er heimilaður með skilyrðum í því skyni að gæta að samkeppni. Í henni felst skuldbinding til ráðstafana sem koma í veg fyrir samkeppnishamlandi áhrif samrunans.[31] Samrunaaðilum er jafnan falið að leggja fram tillögur að sátt við tilkynningu samrunans.
Þrátt fyrir að hugtakið „sátt“ gefi til kynna gagnkvæmt samkomulag er hún í reynd oft eina raunhæfa leiðin til að fá samrunann samþykktan ef stjórnvaldið hefur ákveðið að ljúka máli með setningu skilyrða fyrir samruna. Að öðrum kosti þurfa aðilar að draga samrunatilkynningu til baka eða freista þess að kæra niðurstöðuna. Líkur má leiða að því að fyrirtæki sætti sig því við skilyrði til að ljúka málinu sem fyrst og forðast tafir eða óvissu.
Skilyrði svokallaðra sátta geta haft neikvæð áhrif á samlegð og þá hagræðingu sem lagt var upp með við samrunann.[32] Í ljósi framangreinds er mikilvægt að samkeppnisyfirvöld gæti meðalhófs við setningu skilyrða og endurskoði þau reglulega með afléttingu í huga þegar aðstæður á viðkomandi mörkuðum breytast.
Umhverfið óskilvirkt í alþjóðlegum samanburði
Skilvirkni samkeppnislagaumhverfisins er minni á Íslandi en á Norðurlöndunum (mynd 8). Ísland situr í 42. sæti en Norðurlöndin sitja í 10. sæti að jafnaði.[33] Munurinn þar á getur verið af nokkrum ástæðum, t.d. markaðslegum aðstæðum, samkeppnisreglum eða framkvæmd.
Samkeppnislöggjöf er að miklu leyti samræmd innan EES en breytileikinn er hvað mestur þegar kemur að samrunaeftirliti.[34] Þannig geta lagaákvæði varðandi samruna verið misjöfn milli ríkja er varðar t.a.m. veltumörk, skýrleika, valdheimildir og málsmeðferð.
Hér skiptir líka máli að Ísland er lítið hagkerfi en almennt gætir aukinnar samþjöppunar á slíkum mörkuðum vegna vissar stærðar- og breiddarhagkvæmni sem þarf að ná í rekstri fyrirtækja.[35] Á Íslandi var samþjöppun 0,12 árið 2022 skv. Herfindahl-Hirschman vísitölunni (HHI). Samþjöppun er aðeins lægri í Noregi, eða 0,11, en 0,07 á Norðurlöndunum að meðaltali. Aftur á móti verður að hafa í huga að HHI metur einungis samþjöppun en ekki aðgangshindranir inn á markaði.
Í skýrslu OECD um Ísland árið 2025 segir að samþjöppun sé vandamál ef aðgangshindranir eru til staðar. Þá sé helsta áskorun samkeppnisyfirvalda að ryðja úr vegi aðgangshindrunum sem gera ríkjandi aðilum kleift að misnota markaðsráðandi stöðu, fremur en að koma í veg fyrir markaðsráðandi stöðu sem slíka.[36]
Margt bendir til þess að lágt mat á skilvirkni samkeppnislagaumhverfisins á Íslandi endurspegli ekki aðeins veikleika laganna sjálfra heldur einnig framkvæmd þeirra. Auk óeðlilega lágra veltumarka í lögum geta þættir eins og löng og umfangsmikil málsmeðferð, annir hjá stjórnvaldinu og óskilvirkni, skortur á leiðbeiningarskyldu og takmarkað gagnsæi um ákvarðanir um ítarlega rannsókn spilað lykilhlutverk við mat á fyrirsjáanleika og skilvirkni laganna.
Verulegur tími SKE fer í samrunamál
Á undanförnum árum hefur SKE varið einna mestum tíma í samrunamál (mynd 9).[37] Árið 2024 fór 31% tíma í samrunamál en var 40% með þeim tíma sem fór í endurskoðun skilyrða í eldri samrunamálum.
Þeir lögbundnu frestir sem gilda um samrunamálum setja málin í forgang en á meðan bíða aðrar tegundir samkeppnismála. Þannig ver SKE verulegum hluta af tíma sínum og mannafla í samrunamál á kostnað annarra lykilverkefna, svo sem markaðsrannsókna, eftirlits með misnotkun á markaðsráðandi stöðu, samkeppnishömlum og opinberum samkeppnishindrunum.
Sex tillögur í átt að betra jafnvægi
Samrunaeftirlit á Íslandi er þungt í vöfum og eftirlitið er ekki eins skilvirkt og unnt er. Fyrirtæki sem hyggja á samruna á Íslandi geta átt von á auknum kostnaði, óvissu og lengri málsmeðferð en alþjóðlegir keppinautar. Fórnarkostnaðurinn er greiddur í lakari lífsgæðum vegna neikvæðra áhrifa á fjárfestingu, nýsköpun og vöxt fyrirtækja þegar fram í sækir.
Úrbóta er þörf á samrunaeftirliti til að stuðla að heilbrigðu rekstrarumhverfi sem samræmist framkvæmd í nágrannaríkjum. Verkefnum samkeppnisyfirvalda þarf að forgangsraða svo að takmarkaður tími þess nýtist á sem skilvirkastan hátt. Þá má regluverkið ekki ganga svo langt að vinna gegn markmiðum laganna um að þjóna hagsmunum samfélagsins í heild. Í því skyni leggur Viðskiptaráð til eftirfarandi tillögur til úrbóta:
1. Veltumörk fimmfölduð: Viðskiptaráð leggur til að hækkun veltumarka fyrir tilkynningarskylda samruna til samræmis við Norðurlönd ásamt því að þau verði endurskoðuð árlega m.t.t. verðlags. Slík hækkun myndi spara mikla fyrirhöfn bæði meðal fyrirtækja og SKE án þess að raska samkeppni verulega. Hærri veltumörk lækka fjölda tilkynningarskyldra mála til SKE um 46% miðað við tilkynningarskylda samruna árin 2022-2023 (mynd 10). Breytingin myndi jafnframt hafa lítil áhrif á fjölda mála sem SKE telur að muni raska samkeppni en málum sem lýkur með íhlutun fækkar um þrjú. Þá hefur SKE enn heimild til að kalla eftir samrunatilkynningu þegar samruni nær ekki lögbundnum veltumörkum en verulegar líkur þykja til að hann geti dregið umtalsvert úr virkri samkeppni.
2. Kallheimild afmörkuð: Viðskiptaráð telur að heimild SKE til að kalla eftir samrunatilkynningu, þrátt fyrir að samruni nái ekki hefðbundnum veltumörkum, þurfi að fylgja skýr tímamörk, betri afmörkun á umfangi heimildarinnar og leiðbeiningar til samrunaaðila til að koma í veg fyrir óvissu.
3. Leiðbeiningarskylda lögfest: Viðskiptaráð leggur til að skylda samkeppnisyfirvalda til að veita samrunaaðilum leiðbeiningar verði frekar skýrð í lögum. Tillagan eykur fyrirsjáanleika og gagnsæi um samrunaferlið og einnig hvaða kröfur eru gerðar til samrunaaðila.
4. Meðalhóf í gagnabeiðnum: Gagnabeiðnir eiga að vera í samræmi við umfang og eðli samrunans og aðstæður hverju sinni þannig að fyrirtæki séu ekki beitt óþarflega íþyngjandi kröfum. Beiðnir um viðbótarupplýsingar eiga einungis beinast að gögnum sem eru nauðsynleg til að meta samkeppnisleg áhrif samrunans.
5. Skýrari rammi um forviðræður: Ferli forviðræðna verði gert skýrara að norrænni fyrirmynd. Þá verði óheimilt að meina aðilum að hefja nýjar forviðræður líkt og SKE hefur gert sl. tvö sumur. Við mat á því hvort tilkynning teljist fullnægjandi og um mögulegar frekari gagnabeiðnir verði eftirlitinu gert að gæta meðalhófs.
6. Lögfest verði skilyrði og rökstuðningsskylda SKE vegna tilfærslu mála á fasa II: Sett verði skýr lagaskilyrði um hvers vegna mál færist til frekari rannsóknar í fasa II og SKE verði gert skylt að rökstyðja þá ákvörðun. Það má t.d. gera með gátlista eða viðmiðum sem er birt samrunaaðilum.
Tillögur Viðskiptaráðs miða að því að færa umhverfi samrunaeftirlits nær því sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum með betra jafnvægi milli virkrar samkeppni og eðlilegrar framþróunar og hagræðingar. Þannig má tryggja að íslensk fyrirtæki starfi við sambærilegri skilyrði og erlendir keppinautar þeirra og að samkeppnishæfni landsins sé tryggð í sífellt alþjóðlegra umhverfi.
Björn Brynjúlfur Björnsson, Lísbet Sigurðardóttir, Gunnar Úlfarsson, Ragnar Sigurður Kristjánsson, Jón Júlíus Karlsson og Jakob Lars Kristmannsson
1 OECD (2023): „Competition and innovation, a theoretical perspective“. Slóð: https://www.oecd.org/en/publications/competition-and-innovation-a-theoretical-perspective_4632227c-en.html
2 Ef styttri samrunatilkynningu hefur verið skilað getur SKE innan 15 daga frá móttöku krafist lengri tilkynningar. Í slíkum tilvikum byrjar frestur að líða þegar lengri tilkynning berst.
3 Setji samrunaaðilar, sem óska eftir sáttaviðræðum við SKE fram möguleg skilyrði vegna samrunans á 55. virka degi rannsóknar eða síðar framlengist frestur til rannsóknar sjálfkrafa um 15 virka daga. Óski samrunaaðilar eftir lengri fresti er heimilt að lengja frest um allt að 20 virka daga, sbr. 17. gr. d. samkeppnislaga nr. 44/2005.
4 Sustainability (2020)Thompson, E.K.; Kim, C. „Post-M&A Performance and Failure: Implications of Time until Deal Completion“. Slóð: https://doi.org/10.3390/su12072999
5 OECD (2020), Merger Control in Dynamic Markets http://www.oecd.org/daf/competition/merger-control-in-dynamic-markets.htm
6 Samkeppniseftirlitið (2024). „Skýrsla 7/2024. Þekking og viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja til samkeppnismála“. Slóð: https://www.samkeppni.is/utgafa/skyrslur-raedur-og-kynningar/
7 Samkeppniseftirlitið (2024). „Skýrsla 7/2024. Þekking og viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja til samkeppnismála“. Slóð: https://www.samkeppni.is/utgafa/skyrslur-raedur-og-kynningar/
8 Lögð er áhersla á innlend samrunamál sem hafa einungis áhrif á samkeppni á innlendum markaði, en stærri mál með alþjóðleg samkeppnisleg áhrif heyra undir framkvæmdastjórn ESB í aðildarríkjum.
9 Ríkisendurskoðun (2022). „Samkeppniseftirlitið: samrunaeftirlit og árangur“. Slóð: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-Samkeppniseftirlitid.pdf
10 Sjá t.d. dönsku samkeppnislögin „konkurrenceloven“ en kallheimild (e. „call-in“) ásamt leiðbeiningum, tímamörkum og skýringum var færð inn í lögin árið 2024. Sjá nánar: Konkurrence- og forbrugerstyrelsen (2024): „Vejledning og fusioner under de almindelige omsætningstærskler“.
11 Viðskiptablaðið (2025). Þorbjörg Ásta Leifsdóttir: „Call-in“ heimild í samrunamálum - þörf fyrir aukinn fyrirsjáanleika“.
12 Ríkisendurskoðun (2022). „Samkeppniseftirlitið: samrunaeftirlit og árangur“. Slóð: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-Samkeppniseftirlitid.pdf
13 Samkeppniseftirlitið (2024). Halldór Hallgrímsson Gröndal: „Margt er skifað og misjafnt satt - staðreyndir um samrunamál. Slóð: https://www.samkeppni.is/utgafa/pistlar/margt-er-skrifad-og-misjafnt-satt-stadreyndir-um-samrunamal
14 Viðskiptablaðið (2024). Heiðrún Lind Marteinsdóttir og María Kristjánsdóttir: „Vegir Samkeppniseftirlitsins eru vandrataðir“. Slóð: https://vb.is/skodun/vegir-samkeppniseftirlitsins-eru-vandratadir/
15 Konkurranseloven (NO).
16 Reglugerð EC nr. 139/2004 (EC Merger Regulation)
17 Konkurrenslagen (SE), Konkurrenceloven (DK). Forvaltningsloven (NO), Hallintolaki (FI). Sjá einnig: Viðskiptablaðið (2024). Heiðrún Lind Marteinsdóttir og María Kristjánsdóttir: „Vegir Samkeppniseftirlitsins eru vandrataðir“. Slóð: https://vb.is/skodun/vegir-samkeppniseftirlitsins-eru-vandratadir/
18 Forvaltningsloven (NO), Hallintolaki (FI). Sjá einnig: Viðskiptablaðið (2024). Heiðrún Lind Marteinsdóttir og María Kristjánsdóttir: „Vegir Samkeppniseftirlitsins eru vandrataðir“. Slóð: https://vb.is/skodun/vegir-samkeppniseftirlitsins-eru-vandratadir/
19 Samkeppniseftirlitið (2023). Halldór Hallgrímsson Gröndal og Tómas Aron Viggósson: „Um forviðræður samrunamála og fullnægjandi samrunatilkynningar“. Slóð: https://www.samkeppni.is/utgafa/pistlar/um-forvidraedur-samrunamala-og-fullnaegjandi-samrunatilkynningar
20 Samkeppniseftirlitið (2025). Slóð: https://www.samkeppni.is/utgafa/frettir/samrunamal-i-sumar-tafir-og-ny-mal. Samkeppniseftirlitið (2024). Slóð: https://www.samkeppni.is/utgafa/frettir/samrunamal-i-sumar-ny-mal-og-tafir
21 Svíþjóð: „Föreskrifter och allmänna råd om anmälan av företagskoncentrationer“ (2025), Danmörk: „Fusionskontrol, Vejledning“ (2023), Noregur: „Veiledning om meldeplikt og saksbehandling i fusjonssaker“ (2019), Finnland: „Guidelines on Merger Control (2020)“.
22 European Council: „Best Practices on the conduct of EC merger control proceedings“ (2004). Slóð: https://competition-policy.ec.europa.eu/
23 Heimilt er að skila inn svokallaðri styttri tilkynningu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þó getur SKE óskað eftir lengri tilkynningu ef þurfa þykir.
24 Reglur um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum, nr. 1390/2020.
25 Ríkisendurskoðun (2022). „Samkeppniseftirlitið: samrunaeftirlit og árangur“. Slóð: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2022-Samkeppniseftirlitid.pdf Þar kemur fram í svari SKE að upp hefðu komið skýrar vísbendingar um rangar eða villandi upplýsingar.
26 Samtök atvinnulífsins (2023): „Stöndum vörð um sjálfstæði eftirlitsstofnana“. (Slóð: https://www.sa.is/frettatengt/frettir/stondum-vor%C3%B0-um-sjalfst%C3%A6%C3%B0i-eftirlitsstofnana
27 Samtök iðnaðarins (2024). „Regluverk og eftirlit hefur aukist mikið“. Slóð: https://www.si.is/frettasafn/ithyngjandi-regluverk-til-umraedu-a-framleidsluthingi-si
28 Ársskýrslur Samkeppniseftirlitsins. OECD.
29 OECD (2025). Slóð: https://www.oecd.org/en/publications/oecd-competition-trends-2025_8c4bd00b-en/support-materials.html
30 Samkeppniseftirlitið (2024). Halldór Hallgrímsson Gröndal: „Margt er skifað og misjafnt satt - staðreyndir um samrunamál.“ Slóð: https://www.samkeppni.is/utgafa/pistlar/margt-er-skrifad-og-misjafnt-satt-stadreyndir-um-samrunamal
31 Sbr. 17. gr. f. samkeppnislaga nr. 44/2005.
32 OECD (2023): „Ex Post Assessment of Merger Remedies“. Slóð: https://www.businessatoecd.org/hubfs/Ex%20Post%20Assessment%20of%20Merger%20Remedies.pdf?hsLang=en
33 IMD (2025). „World Competetiveness Ranking“. Slóð: https://www.imd.org/centers/wcc/world-competitiveness-center/rankings/world-competitiveness-ranking/
34 Norska Samkeppniseftirlitið (2021): „Fusjonskontrollen – hjelper avhjelpende tiltak?“ Slóð: https://konkurransetilsynet.no/innlegg-fusjonskontrollen-helper-avhjelpende-tiltak/
35 Rutz, S. (2013). „Applying the theory of small economies and competition Policy“. Slóð: https://link.springer.com/article/10.1007/s10842-011-0113-6
36 OECD (2025). „OECD Economic Surveys: Iceland 2025“. Slóð: https://www.oecd.org/en/publications/oecd-economic-surveys-iceland-2025_890dbe05-en.html
37 Ársskýrslur Samkeppniseftirlitsins 2021-2024.