Ísland stendur í stað en hefur ekki mælst jafn langt á eftir Norðurlöndunum í átta ár
Ísland stendur í stað í 21. sæti af 64 í samkeppnishæfniúttekt IMD árið 2021, eftir að hafa lækkað um eitt sæti í fyrra. Heilt yfir má segja að Ísland hafi staðið í stað síðustu ár en árið 2017 var Ísland í 20. sæti. Áhrif heimsfaraldursins á íslenska hagkerfið hafa verið óvenju mikil miðað við önnur hátekjuríki, sem endurspeglast í niðurstöðunum. Þó má greina jákvæða þróun í mörgum undirþáttum sem og tækifæri til úrbóta. Áhyggjuefni er að Ísland hefur ekki verið jafn langt frá hinum Norðurlöndunum frá árinu 2013, en þau raða sér í þrjú af sex efstu sætunum.
Í efnahagslegri frammistöðu er Ísland í 55. sæti en hækkar um þrjú sæti milli ára. Þar togast á betri útkoma á innlendu hagkerfi og lægra atvinnustig. Skilvirkni hins opinbera stendur í stað og mælist Ísland í 17. sæti. Þar er hið sama uppi á teningnum að áhrif heimsfaraldursins togast á við jákvæða þróun. Hækkandi vaxtakostnaður hins opinbera (49. sæti) vegur t.d. á móti því að mat stjórnenda á áhrifum Seðlabankans hefur batnað til muna (9. sæti, 61. sæti árið 2018).
Skilvirkni atvinnulífsins heldur áfram að batna og mælist Ísland í 14. sæti. Þar af er vinnumarkaðurinn enn veikleiki (33. sæti) en afar jákvætt er að sjá fjármögnun hækka úr 32. sæti upp í 27. sæti. Þar gegna nýskráningar á hlutabréfamarkaði og vaxtalækkanir lykilhlutverki. Í samfélagslegum innviðum heldur Ísland áfram sterkri stöðu og er í 9. sæti, sem er hækkun um heil átta sæti. Þar er stærsta breytingin stökk um 10 sæti í tæknilegum innviðum sem er meðal annars vegna aukinna rannsókna og þróunarstarfsemi fyrirtækja.
Talsverðar breytingar eru á toppsætunum í ár. Singapúr sem hefur verið í efsta sæti sl. tvö ár fellur um fimm sæti. Sviss tekur við efsta sætinu, einkum vegna hás atvinnustigs og mikillar alþjóðafjárfestingar. Að auki hækkar Sviss talsvert í stofnanaumgjörð og opinberum fjármálum.
Svíþjóð er einn af hástökkvurunum í ár og er í 2. sæti. Styrkur innlends efnahags og atvinnustigs skiptir þar máli ásamt aukinni skilvirkni hjá hinu opinbera. Einnig kemur Svíþjóð betur út í þáttum sem varða vinnumarkað og þá sérstaklega að mati stjórnenda þar í landi.
Danmörk er í 3. sæti og Noregur því 4. og geta bæði vel við unað. Bæði löndin koma sérstaklega vel út í samfélagslegum innviðum líkt og aðrar Norðurlandaþjóðir. Lægst Norðurlandanna, fyrir utan Ísland, er Finnland í 11. sæti.
Ísland getur, ef viljinn er fyrir hendi, verið með allra samkeppnishæfustu ríkjum heims ásamt Norðurlöndunum. Til þess þarf rekstrarumhverfið í víðu samhengi að vera hagfellt íslenskum fyrirtækjum en þar eru ótal tækifæri til úrbóta. Innleiðing tillagna alþjóðahóps Viðskiptaráðs. sem fjallað var um í skýrslu Viðskiptaþings, myndu stórauka samkeppnishæfni landsins.
Úttekt IMD á samkeppnishæfni þjóða er ein sú umfangsmesta í heimi og hefur verið framkvæmd í 33 ár. Úttektin samanstendur af yfir 300 undirþáttum. Tveir þriðju þeirra eru í formi haggagna sem safnað er af IMD og samstarfsaðilum í hverju ríki fyrir sig. Þriðjungur byggir á alþjóðlegri stjórnendakönnun sem um 6,200 stjórnendur fyrirtækja og annarra samtaka taka þátt í. Viðskiptaráð er samstarfsaðili IMD hér á landi.