Viðskiptaráð Íslands

Ríkið í samkeppni við fasteignafélög

- ein stærsta einkavæðingin ef fasteignir ríkisins yrðu seldar

Íslenska ríkið á fasteignir fyrir rúmlega 50 milljarða að fasteignamati þegar undanskildar eru fasteignir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og þannig er íslenska ríkið í samkeppni við fasteignafélög um eignarhald og rekstur fasteigna. Þetta kemur fram í könnun sem Viðskiptaráð Íslands gerði á fasteignum í eigu ríkisins og fjallað verður um á ráðstefnu um þróun fasteignamarkaðarins og rekstur fasteigna sem haldin er í tengslum við stórsýninguna Verk og vit í Laugardalshöll.

Einkaaðilar með hagkvæmari fasteignarekstur

Sýnt hefur verið fram á það, bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar, að reglulegt viðhald er mikilvægt til að tryggja hagkvæman rekstur fasteigna. Reglulegt viðhald virðist hins vegar ekki hafa forgang í fasteignarekstri ríkisins og ráðast annað hvort að því hvernig pólitískir vindar blása eða hinsvegar af því að í óefni er komið.  Ófá dæmi gefa tilefni til að efast um að ríkið sé best til þess fallið að sinna eignarhaldi og viðhaldi fasteigna. Nægir þar að nefna Þjóðmenningarhúsið, Þjóðminjasafnið og fjölmargar ríkisstofnanir um allt land. Því er kannski eðlilegt að menn spyrji hvort ekki sé tími til kominn fyrir ríkið að losa um fasteignir í sinni eigu. Hagkvæmara getur reynst fyrir ríkið að leigja þessar eignir af aðilum sem reynslan hefur sýnt að eru betur í stakk búnir að sinna því verkefni á hagkvæmari máta.  Að auki þykir einfaldlega orka tvímælis að ríkið sé að taka stöðu á sveiflukenndum fasteignamarkaði. Síðast en ekki síst getur ríkið notað andvirði af sölu eignanna til að greiða niður skuldir.

Ef ríkið myndi selja flestar fasteignir sínar og taka þær síðan á leigu eftir þörfum væri sennilega um stærstu einkavæðingu íslenska ríkisins að ræða til þessa. Við bætist að sala fasteigna ríkisins til einkaaðila myndi bæði fela í sér aukinn sveigjanleika í starfsemi íslenska ríkisins og mun hagkvæmari fasteignarekstur þar sem öflug samkeppni ríkir í flestum greinum fasteignastjórnunar á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir Davíð Þorláksson hjá Viðskiptaráði Íslands í síma 510 7100.

Tengt efni

Veðjað á rangan hest: Umgjörð veðmálastarfsemi á Íslandi

Þótt veðmálastarfsemi sé sniðinn þröngur stakkur hérlendis veðja fáar þjóðir …
12. september 2024

Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti

Opinbert eftirlit stendur samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Íþyngjandi …
27. ágúst 2024

Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mars 2024