Miðgildi heildarlauna flugumferðastjóra var 1.843 þús. kr. á mánuði árið 2024 og er stéttin sú sjötta launahæsta í landinu. Þrátt fyrir það hafa kjaraviðræður þeirra við Samtök atvinnulífsins siglt í strand og eru verkföll yfirvofandi. Af því tilefni hefur Viðskiptaráð dregið saman upplýsingar um kjör stéttarinnar og afleiðingar verkfallsaðgerðanna.

Verkfallsaðgerðir Félags íslenskra flugumferðarstjórar (FÍF) hefjast eftir hádegi í dag, fimmtudaginn 23. október, eftir að kjaraviðræður þeirra og Samtaka atvinnulífsins sigldu í strand. Flugumferðarstjórar hafa boðað frekari skæruverkföll en búast má við því að þau hafi gríðarleg neikvæð áhrif á ferðaþjónustu, vöruflutning og samkeppnishæfni. Í ljósi þessa hefur Viðskiptaráð ákveðið að taka saman upplýsingar kjör stéttarinnar og afleiðingar verkfallsaðgerðanna.
Flugumferðastjórar sjötta launahæsta stétt landsins
Flugumferðastjórar voru sjötta launahæsta stétt landsins miðað við miðgildi heildarlauna árið 2024 (mynd 1). Það er samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar en þar er flokkurinn sérfræðistörf við flugumsjón sjötti launahæsti flokkurinn af 269 flokkum alls. Undir þann flokk falla einnig störf flugumsjónarmanna og flugumferðarstjórnarnema.

Starfsstéttir sem eru launahærri en flugumferðastjórar eru dómarar, forstjórar fyrirtækja og stofnana, yfirmenn í þjónustufyrirtækjum, sérfræðistörf í lækningum og störf tengd ráðgjöf og sölu verðbréfa.[1]
Stór hluti náms flugumferðarstjóra er launað
Áætlað er að flugumferðarstjórnarnám taki um tvö ár en þar af eru 9 til 12 mánuðir starfsþjálfun þar sem nemar fá mánaðarlegan námsstyrk. Fyrir utan starfsþjálfunina, sem er síðasti hluti námsins, þurfa einstaklingar að ljúka grunnnámi, sem tekur eina önn, og áritunarnámi, en misjafnt er hve langan tíma það tekur eftir starfsstöð.
Til að hefja nám í flugumferðastjórn þurfa einstaklingar að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi, vera orðnir 18 ára, tala og rita góða íslensku og ensku og standast læknisskoðun og skimun fyrir geðvirkum efnum, auk annara almennari krafna.[2]
Fámennur hópur sem getur valdið verulegu efnahagslegu tjóni
Flugumferðarstjórar eru fámennur hópur sem getur valdið miklum efnahagslegum skaða með verkfallsaðgerðum sínum.[3] Þær valda flugfélögum og farþegum þeirra beinum skaða á meðan verkfallsaðgerðum stendur. Þá dregur reglubundin röskun á flugáætlunum sökum verkfallsaðgerða úr áreiðanleika Keflavíkurflugvallar (KEF) í millilandaflugi til og frá Íslands en einnig í gegnum Ísland.
Verkföllin valda jafnframt verulegum öðrum fjárhaglegum skaða. Í fyrsta lagi verða þau til þess að færri ferðamenn til landsins sem hefur neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi. Í öðru lagi hefur það neikvæð áhrif á útflutning fyrirtækja með flugfrakt. Í þriðja lagi þá skaða aðgerðirnar einnig samkeppnishæfni landsins til lengri tíma litið þar sem að þær hafa neikvæð áhrif á orðspor Íslands sem áfangastaður fyrir ferðamenn.
Auka ætti heimildir ríkissáttasemjara
Viðskiptaráð telur að auka þurfi valdheimildir ríkissáttasemjara svo embættið geti afstýrt skæruverkfallsaðgerðum líkt og þeim sem FÍF beitir nú. Það er óásættanlegt að fámennur hátekjuhópur neiti að undirgangast þá launastefnu sem þegar hefur verið mörkuð og beiti verkföllum sem valda gífurlegum skaða fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag.
1 Sjá töflu Hagstofunnar um laun eftir starfi og kyni. Slóð: https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__launogtekjur__1_laun__1_laun/VIN02001.px/
2 Umfjöllun Isavia um nám í flugumferðastjórn. Slóð: https://ans.isavia.is/starfsemin/nam-i-flugumferdarstjorn
3 Flugumferðastjórar eru 163. Slóð: https://www.iceatca.com/