Viðskiptaráð Íslands

Tímabært að færa réttindi opinberra starfsmanna nær vinnumarkaði

Viðskiptaráð fagnar áformum um afnám áminningarskyldu starfsmanna ríkisins. Rík uppsagnarvernd sem felst m.a. í áminningarskyldunni kemur í veg fyrir að hægt sé að taka á ófullnægjandi frammistöðu eða brotum í starfi með fullnægjandi hætti. Ráðið telur áformin fela í sér þarft og tímabært skref í þá átt að færa réttindi opinberra starfsmanna í átt að almennum vinnumarkaði.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreind áform, sem fela í sér að afnumin verði áminningarskylda sem undanfara uppsagnar annars vegar og lausnar um stundarsakir hins vegar. Þá eru áform um breytingar á ákvæðum starfsmannalaga um setningu í embætti.

Viðskiptaráð fagnar áformunum og telur þau fela í sér þarft og tímabært skref í þá átt að færa réttindi opinberra starfsmanna í átt að almennum vinnumarkaði. Opinberir starfsmenn njóta ýmissa starfstengdra réttinda umfram það sem þekkist á almennum vinnumarkaði. Þar má nefna styttri vinnutíma, ríkari veikindarétt, ríkari uppsagnarvernd og lengra orlof. [1]

Tímabært að endurskoða uppsagnarvernd

Rík uppsagnarvernd opinberra starfsmanna kemur í veg fyrir að hægt sé að taka á ófullnægjandi frammistöðu eða brotum í starfi með fullnægjandi hætti. Gera þarf stjórnendum hins opinbera kleift að bregðast við slíkum tilvikum og samhliða auka möguleika þeirra til þess að umbuna starfsfólki fyrir góða frammistöðu. 

Núgildandi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem kveðið er á um að ekki megi segja upp starfsmanni án þess að hann hafi fyrst verið áminntur og fengið að bæta ráð sitt, torvelda málsmeðferð varðandi starfslok opinberra starfsmanna og hafa ítrekað reynst hindrun í þeirri vegferð. Í framkvæmd hafa reglurnar leitt til þess að þrátt fyrir að misbrestir eða brot séu staðfest af dómstólum eru uppsagnir dæmdar ólögmætar sökum strangra lagaákvæða um áminningarskyldu og ríkinu í kjölfarið gert að greiða starfsmanninum skaðabætur. 

Þegar lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru sett árið 1954 voru opinberir starfsmenn fyrst og fremst embættismenn, en í dag er algengast að þeir sinni þjónustustörfum sambærilegum þeim sem tíðkast í einkageiranum, til dæmis sérfræðistörfum, í fræðslu, afgreiðslu, þjónustu eða umönnun. Reglur um áminningar og uppsagnir hafa þó í meginatriðum staðið óbreyttar þrátt fyrir að opinberir starfsmenn séu margfalt fleiri nú en árið 1954 og samsetning starfa þeirra sé önnur.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2011 segir eftirfarandi:  

„Full ástæða [er] til að endurmeta út frá almannahagsmunum sem og reynslunni af áminningarreglunum og stjórnsýslulögunum hvort ekki sé tímabært að breyta þeim. Þau rök sem færð hafa verið fyrir réttarverndinni eiga ekki við um ýmis störf innan ríkisgeirans. Þessi störf, t.d. störf innan heilbrigðis- og menntakerfanna, eru þess eðlis að ekki verður talin hætta á að viðkomandi starfsmenn verði beittir pólitískum þrýstingi í starfi.“ [2]

Stjórnendur hjá ríkinu fylgjandi afnámi uppsagnarverndar

Ríflega tveir af hverjum þremur stjórnendum hjá hinu opinbera telja framkvæmd áminninga og uppsagna flókna og því sé erfitt að beita því úrræði (mynd 1). Þá telur meirihluti þeirra lögin vinna gegn því að stofnanir starfi innan fjárheimilda og rúmlega helmingur að starfs­mannalögin vinni gegn skilvirkni í rekstri ríkisins.

Í núverandi mynd stendur lagaraminn um uppsagnir opinberra starfsmanna gegn eðlilegum sveigjanleika í rekstri ríkisins og vinnur gegn því að stjórnendur þess geti nýtt skattfé með sem árangursríkustum hætti. Afnám uppsagnarverndarverndar myndi veita nauðsynlegt svigrúm til að bregðast við ef starfsmaður bregst starfsskyldum sínum eða brýtur af sér í starfi. Sá yfirgnæfandi meirihluti opinberra starfsmanna sem sinnir störfum sínum af heilindum og alúð á skilið heilbrigt starfsumhverfi þar sem „svartir sauðir“ skemma ekki fyrir. Á það ekki síður við um þá sem reiða sig á góða þjónustu frá hinu opinbera.

Kostnaður vegna uppsagnarverndar hleypur á tugum milljarða

Viðskiptaráð áætlar að ríkari uppsagnarvernd opinberra starfsmanna kosti ríki og sveitarfélög 30 til 50 ma. kr. á ári (mynd 2). [3] Annars vegar eru bein neikvæð áhrif af verndinni, sem endurspeglast í minni afköstum þeirra „svörtu sauða“ sem ekki er hægt að skipta út fyrir hæfara starfsfólk áætluð 3-4% á framleiðni á ársgrundvelli. Hins vegar eru óbein áhrif, sem endurspeglast í neikvæðum áhrifum á vinnustaðinn í heild og valda brotthvarfi starfsfólks áætluð 2-3%.

Að mati Viðskiptaráðs ætti umframvernd einungis að ná til embættismanna og æðstu stjórnenda og takmarkast við vernd stjórnsýslulaga án sérstakrar áminningarskyldu starfsmannalaga (mynd 3).

Af framangreindu er ljóst að ákvæði starfsmannalaga um uppsagnarvernd opinberra starfsmanna eru tímaskekkja og nauðsynlegt að afnema hana í núverandi mynd. Áformin eru jákvætt fyrsta skref í þá átt.

Viðskiptaráð hvetur til þess að áformin nái fram að ganga.

Tilvísanir

[1] Sjá úttekt Viðskiptaráðs (desember 2024) „Dulbúinn kaupauki: Sérréttindi opinberra starfsmanna“ Slóð: https://vi.is/skodanir/dulbuinn-kaupauki. Sjá einnig úttekt Viðskiptaráðs (maí 2025) „Svartir sauðir, glatað fé: uppsagnarvernd opinberra starfsmanna“. Slóð: https://vi.is/skodanir/svartir-saudir-glatad-fe

[2] Ríkisendurskoðun (2011) „Mannauðsmál ríkisins: 1 Starfslok ríkisstarfsmanna“. Slóð: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2011-mannaudur-starfslok.pdf

[3] Úttekt Viðskiptaráðs (maí 2025) „Svartir sauðir, glatað fé: uppsagnarvernd opinberra starfsmanna“. Slóð: https://vi.is/skodanir/svartir-saudir-glatad-fe

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024