Viðskiptaráð Íslands

Skref í rétta átt í bættri umgjörð heilbrigðiseftirlits

Viðskiptaráð fagnar áformum um að breytt fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits hér á landi í umsögn við áform þar um. Stjórnvöld ætla að m.a. að fækka eftirlitsaðilum úr ellefu í tvo og færa ábyrgð með því upp til Umhverfis- og orkustofnunnar annars vegar og Matvælastofnunar. Stjórnvöld ættu þó að ganga lengra og útvista framkvæmd eftirlitsins til faggiltra skoðunaraðila.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar áform um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar regluverks og aukinnar skilvirkni eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum. Meginmarkmið áformanna er aukið samræmi eftirlits, einföldun og skilvirkni með því að færa ábyrgð á eftirliti með hollustuháttum og mengunarvörnum til Umhverfis- og orkustofnunar og ábyrgð á eftirliti með matvælum til Matvælastofnunar og þannig fækka eftirlitsaðilum úr ellefu í tvo.

Mikilvægt skref í átt að aukinni skilvirkni

Viðskiptaráð fagnar áformum um að auka skilvirkni og því að ráðuneytin hyggist ráðast í breytingar á fyrirkomulaginu. Mikið óhagræði fylgir núverandi fyrirkomulagi og skortur er á samræmi í framkvæmd heilbrigðiseftirlits. Heilbrigðisumdæmin reka t.d. fimm mismunandi gagnagrunna, gjaldskrár eru ósamræmdar milli heilbrigðisumdæma og nefndirnar misvel búnar hvað varðar fjárráð og mannafla, sem hefur áhrif á getu þeirra til að sinna skyldum sínum.

Óhagræðið við núverandi fyrirkomulag hefur jafnframt lengi legið fyrir og ljóst að breytinga er þörf. Í skýrslu frá árinu 2001 um Hollustuvernd ríkisins er fjallað um þau vandamál sem fylgja fyrirkomulaginu, sérstaklega hvað varðar samræmingu, þegar eftirlitið er í höndum svo margra aðila. Heilbrigðiseftirlit var líka umfjöllunar­efni í skýrslu Hagfræðistofnunar um eftirlitsiðnaðinn á Íslandi frá 2003. Um galla fyrirkomulagsins var einnig fjallað í úttekt Ríkisendurskoðunar á Matvælastofnun frá árinu 2013, í skýrslu frá starfshópi um fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits frá árinu 2015, í greiningu KPMG á opinberu eftirliti frá 2020 og nú síðast í skýrslu starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælum frá því í ágúst 2023.[1]

Aukið hagræði af faggiltum eftirlitsstofum

Viðskiptaráð hvetur eindregið til þess að framkvæmd eftirlitsins verði útvistað til faggiltra eftirlitsaðila. Stjórnsýslu­þáttur eftirlitsins yrði þá áfram í höndum ríkis­stofnanana, en faggiltir skoðunaraðilar myndu sjá um framkvæmd eftirlitsins. Þannig mætti skapa forsendur til að þróa eftirlitsaðferðir með þeim hætti að óhagræði eftirlitsskyldra aðila sé lágmarkað án þess að dregið sé úr kröfum um öryggi og vernd. Þetta fyrirkomulag myndi jafnframt gera einstaklingum sem starfa í heilbrigðis­eftirliti tækifæri til að setja á fót eigin rekstur og keppa sín á milli.

Ávinningur þess að fela faggildum aðilum framkvæmd eftirlits getur verið mikill. Dæmi um slíkt er öryggiseftirlit með bifreiðum sem var til ársins 1989 aðeins í höndum Bifreiðaeftirlits ríkisins. Árið 1995 var framkvæmd eftirlitsins gefin frjáls og í kjölfarið hófu einkareknar skoðunarstofur að sinna eftirlitinu. Stjórnsýsluþáttur eftirlitsins var áfram á vegum opinberrar stofnunar, sem í dag er Samgöngustofa. Í dag eru fjórar starfandi einka­reknar faggiltar skoðunarstofur sem sinna eftirliti með öryggi bifreiða um allt land með góðu móti.[2]

Að framangreindu virtu hvetur Viðskiptaráð til þess að áformin nái fram að ganga og að framkvæmd eftirlitsins verði útvistað til faggiltra skoðunaraðila.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tilvísanir

1 Viðskiptaráð (2024). „23 ár af skýrslum og starfshópum“. Slóð: https://vi.is/greinar/23-ar-af-skyrslum-og-starfshopum

2 Viðskiptaráð (2024). „Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti“. Slóð: https://vi.is/skodanir/rettum-kursinn

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024