Viðskiptaráð Íslands

Lagahreinsun til bóta

Lagahreinsun af þessum toga er einföld aðgerð í þeim skilningi að hún hefur takmörkuð efnisáhrif á gildandi rétt.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um brottfall ýmissa laga á sviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Um að ræða mál sem er einn margra hlekkja í því verkefni að einfalda regluverk og koma í veg fyrir réttaróvissu sem annars kynni að skapast. Viðskiptaráð fagnar þessu og hvetur til þess að víðar verði gripið til slíkra ráða í lagasafninu.

Lagahreinsun af þessum toga er einföld aðgerð í þeim skilningi að hún hefur takmörkuð efnisáhrif á gildandi rétt. Umrædd lagafyrirmæli eru flest augljóslega óþörf, en þvælast þó fyrir í lagasafninu. Engu að síður hefur hreinsunin þau áhrif að gera lagasafnið aðgengilegra og einfaldara og því er hún jákvæð og mikilvæg, jafnvel þótt ekki sé um stórvægilegar breytingar að ræða.

Viðskiptaráð minnir á það, í ljósi þess að um aðgerð til einföldunar regluverks er að ræða, að enn er langt í land. Í Hinu opinbera, riti Viðskiptaráðs Íslands sem út kom í haust, var fjallað um þessi mál, og áhersla lögð á að regluverk sé einfalt og aðgengilegt fólki og fyrirtækjum. Þessar ábendingar eru ekki að ástæðulausu, en Ísland stendur illa í alþjóðlegum samanburði. Það sýnir til dæmis nýleg úttekt OECD á regluverki í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Þá er staða Íslands óviðunandi í úttekt IMD viðskiptaháskólans á skilvirkni regluverks þar sem Ísland er í 21. sæti og vermir síðasta sætið, ef eingöngu er horft til nágrannaþjóða á Norðurlöndum.

Viðskiptaráð bindur vonir við að frumvarpið nái fram að ganga.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024