Endurskoða þarf lögverndun starfa

Fjöldi lögverndaðra starfsgreina og starfa á Íslandi er umtalsvert hærri en í öðrum löndum innan Evrópu og OECD. Viðskiptaráð telur þörf á að endurskoða lög um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum og meta þarf hvort þau standist kröfur um málefnalegar takmarkanir á atvinnufrelsi.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp, sem er ætlað að lögfesta framkvæmd meðalhófsprófunar við breytingar á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum um lögverndun starfa. 

Fullt tilefni til að endurskoða eldri kröfur 

Viðskiptaráð fagnar innleiðingu tilskipunarinnar enda er hún liður í því að auka samkeppnishæfni og sveigjanleika íslensks atvinnulífs. Hún dregur úr hindrunum í regluverki og tryggir að ný löggjöf sé skýr og skilvirk auk þess að vera í samræmi við skuldbindingar íslenskra stjórnvalda samkvæmt EES-samningnum. Ráðið telur þó mikilvægt að ráðuneytið láti hér ekki staðar numið heldur ráðist einnig í vinnu sem tilskipunin sjálf virðist gera ráð fyrir, þ.e. að meðalhófskönnun verði jafnframt beitt við endurskoðun eldri krafna.  

Fjöldi lögverndaðra starfsgreina og starfa á Íslandi er umtalsvert hærri en í öðrum löndum innan Evrópu og OECD.  Lög um handiðnað nr. 42/1978 og lög nr. 8/1996 um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum þarfnast endurskoðunar og meta þarf hvort þau standist kröfur um málefnalegar takmarkanir á atvinnufrelsi. Lög um handiðnað hafa t.a.m. enga markmiðsgrein og samkvæmt þeim er allur handiðnaður í atvinnuskyni bannaður nema hann sé sérstaklega leyfður. Þetta stenst tæplega atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrár. 

Viðskiptaráð hvetur ráðuneytið jafnframt til að líta til tillagna OECD frá 2020 um að endurskoða í heild sinni löggjöf um löggiltar starfsgreinar, endurskoða kerfi meistararéttinda og draga úr reglubyrði.  

Samfélagsþróun og breytingar á lagaumgjörð almennt kalla á endurskoðun regluverks vegna löggildingar. Hér gilda fjölmargar reglur um veitingu þjónustu og réttindi neytenda óháð löggildingu, möguleikar almennings til að afla sér upplýsinga eru ríkari en áður og stjórnvöld hafa fjölbreyttari leiðir til að ná markmiðum um vernd almannahagsmuna. 

Viðskiptaráð hvetur til þess að frumvarpið nái fram að ganga.   

María Guðjónsdóttir,
Lögfræðingur Viðskiptaráðs

Lesa umsögn Viðskiptaráðs

Tengt efni

Gullhúðun og refsigleði í nýjum markaðssetningarlögum

Þingið hefur til umfjöllunar frumvarp til nýrra markaðssetningarlaga sem er ...
5. jún 2024

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Frumvarp til breytingar á raforkulögum þarfnast talsverðar endurskoðunar

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. ...
15. mar 2023