Viðskiptaráð skilaði inn umsögn um tillögu til þingsályktunar um samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki. Tillagan snýt að því að fela forsætisráðherra að vinna heildstæða úttekt á löggjöf og regluverki hér á landi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni á markaði. Viðskiptaráð fagnar tillögunni eindregið, þó telur ráðið að tillagan þurfi að taka mið af því verkefni sem nú þegar er hafið á vegum atvinnuvegaráðuneytisins, en þar er hafin samkeppnisúttekt á löggjöf ferðaþjónustu og byggingariðnaðar.
Viðskiptaráð telur þarft að framkvæma heildarmat á löggjöf á Íslandi með hliðsjón af áhrifum á virka samkeppni og einföldun regluverks viðskiptalífsins. Þrátt fyrir að stór hluti þess regluverks sem íslensk fyrirtæki búa við sé sambærilegur við það sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar er víða pottur brotinn í laga- og stofnanaumgjörð hér á landi. Umbætur á stofnanakerfi og leikreglum hafa hingað til setið á hakanum og hvetur ráðið stjórnvöld til að hefja úttekt regluverks sem allra fyrst með það að leiðarljósi að einfalda regluverkið eins og kostur er.